föstudagur, 29. ágúst 2008

Morfeus okkar Stefánsson

Það eru mörg ár síðan Ólafur Stefánsson vann hug og hjörtu landsmanna með handknattleiksafrekum sínum en smátt og smátt hefur handknattleikshetjan farið að falla í skuggann á Ólafi sjálfum, persónunni, eða að minnsta kosti hjá mér.

Ég man eftir því þegar hann fór fyrst að láta til sín taka í landsliðinu, feiminn strákur sem fór snemma að vekja athygli fyrir að stunda jóga samhliða handboltanum og veita liðsfélögum sínum mikla andlega hvatningu. Heimsspekileg ummæli Ólafs í Peking hafa vakið athygli víða um heim og ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir handboltaáhugann er ég mun spenntari fyrir því að sjá hvaða skref hann tekur næst í heimspekinni heldur en hvert hann stefnir í handboltanum.

Ég rakst á mjög áhugavert viðtal sem tekið var við Ólaf rétt fyrir EM í handbolta í febrúar 2006, þar talar hann um áhuga sinn á heimsspeki, forgangsröðun í lífinu og viðhorf sitt til lífsins.

Hann segir meðal annars frá kenningu sem hann aðhyllist og segir hjálpa sér til að takast á við lífið og bjóða örlögunum byrginn en hún gengur út á að líkja lífinu við listaverk eins og hér segir:

Samkvæmt henni ert þú að mála flott verk sem verður ekki tilbúið fyrr en þú deyrð. Þá er bara að sletta á það sem flestum litum, sumir eru dökkir, aðrir eru litir sorgarinnar og enn aðrir litir eru frábærir. Svo er bara að reyna að búa til ,,harmóníu” úr þessu öllu, vinna eins vel úr hverjum lit og hægt er og gera þetta sem fallegast. Það er ekki hægt ef þú aðhyllist hamingjuhugsjónina. Þá reynir þú að stroka yfir liti sem gætu valdið þér óþægindum og segir: ,,Heyrðu, þessi litur! Ég veit ekki alveg hvort hann gerir mig hamingjusaman, ég veit ekki hvort að ég þori að takast á við eða prófa þetta,” segir hann með áherslu og heldur áfram. ,,Listaverkalíkingin byggir á því að taka óhamingjuna inn sem hluta af verkinu jafnt sem hamingjuna og gera litríkt, fallegt listaverk sem er bara þú í staðinn fyrir að fara alltaf milliveginn og passa upp á að styggja engan og taka aldrei sénsa.”


Ég held það sé mikið til í þessu, að við finnum ekki hamingjuna ef við leitum hennar of stíft, eins og þegar við finnum ekki það sem er of augljóst - beint fyrir framan nefið á manni. Hamingjan er val en ekki áfangastaður og um hana hafa utankomandi aðstæður og verkefni lítið að segja. Fegurð lífsins er að finna í öllu litrófi heimsins, án þess og allra andstæðna hans væri þessi veröld heldur bragðdauf. Þegar ég lít til baka yfir það sem af er æfi minnar þá eru það ekki endilega björtu og tæru litirnir sem marka vörður, heldur hefur mótlætið engu að síður aukið á fegurð hennar og gert mig að þeirri litríku manneskju sem ég er í dag :)

Ég efast ekki um að viðhorf Óla til lífsins og trú hafi fleyt strákunum langleiðina að silfrinu sem þeir unnu svo sannarlega til.

Ólafur sagði í viðtali eftir undanúrslitaleikinn við Spánverja á dögunum að honum liði eins og hann væri Morfeus, draumasmiðurinn sjálfur, að draumur hans um að standa á palli á Ólympíuleikum með medalíu um háls væri orðinn að veruleika en að enn væri ekki alveg útséð um litinn.

Honum tókst það, tilraunin heppnaðist, hann kenndi strákunum að öll höfum við hæfileikann til að vera draumasmiðir í eigin lífi, hann fékk þá til að trúa á drauminn, gera allt hvað þeir gátu til að láta hann rætast og treysta svo lífinu til að leiða þá að markmiðinu.

Markmiðið já, var það kannski eini veiki hlekkurinn í tilrauninni? var markmiðið medalía eða var það gull? Þeir mættu nú kannski vera aðeins gráðugari næst og gæta þess að þeir sjái medalíuna fyrir sér í lit, í gulli ;)

föstudagur, 22. ágúst 2008

Tvö á torgi á Menningarnótt


Dúettinn “Við tvö” syngur og flytur á gítar þjóðlög í bland við angurvær íslensk dægurlög. Dagskráin spannar allt frá dulmögnuðum tregasöngvum til ylhýrra ástarlaga. Lögin verða kynnt og sett í sögulegt samhengi og þar sem atriðið er flutt við minnisvarða Bríetar Bjarnhéðinsdóttur verður kvennasagan og sjónarhorn kvenna aldrei langt undan.


Ég hlakka til að sjá ykkur,
Guðrún Birna le Sage ;)

föstudagur, 15. ágúst 2008

Valdið er okkar!

Úff!
Já þetta eru nú meiri skrípalætin í borgarstjórn Reykjavíkur, maður er eiginlega orðlaus, Hanna Birna segir í Kastljósi nú áðan að samstarfið hafi verið styrt frá upphafi og vekur það spurningar hjá mér um gáfur og hæfni hennar og félaga til að taka ákvarðanir yfir höfðu.

Mér er það minnisstætt þegar ég stóð í ráðhúsinu, fyrir rúmu hálfu ári, í miðjum kór sem kallaði endurtekið "hættið við, hættið við" og gerði allt hvað hann gat til að benda kjörnum fulltrúum á að þetta samstarf tefldi hagsmunum þeirra/borgarbúa í tvísýnu - meirihlutinn hékk á einum manni sem brennt hafði allar brýr sér að baki og stóð sem eyland í eigin flokki.

Eina glóran í þessum leik var eiginhagsmunapot á kostnað réttaröryggis og vinnufriðs í borginni - lýðræðinu var traðkað niður í svaðið!

En svo er sagan að endurtaka sig... hvað getur maður nú sagt?

Hér er ályktun sem við í stjórn Hallveigar - ungum jafnaðarmönnum í Reykjavík sendum frá okkur í dag:


Hallveig hafnar Bakdyradúett.

Hallveig – ungir jafnaðarmenn í Reykjavík, hafnar nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni og veit að Reykvíkingar eru sama sinnis. Enn einu sinni á kjörtímabilinu er búið að misbjóða lýðræðinu og borgarbúum. Í síðustu kosningum fengu þessir flokkar aðeins um 48% atkvæða. Nú mælast þeir með innan við 29% fylgi. Að auki hefur hin upphaflega forystusveit beggja flokka tvístrast, en tveir efstu menn úr prófkjöri Framsóknarflokksins hafa yfirgefið borgarmálin og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins getur ekki stjórnað sjálfum sér, hvað þá borginni.

Verðandi formaður borgarráðs, Óskar Bergsson, hefur nú innan við tvö prósent borgarbúa á bak við sig. Hallveig vill rifja upp að hann á sér sögu sem pólitíkus eigin valda frekar en fólksins. Hann sat beggja vegna borðsins fyrr á kjörtímabilinu, sem formaður framkvæmdaráðs og á sama tíma sem fulltrúi Faxaflóahafna í hagsmunagæslu gagnvart sjálfum sér. Óskar er nú ábyrgur fyrir því að hafa hundsað möguleikann á öflugri borgarstjórn Tjarnarkvartettsins sem nýtur mikils trausts borgarbúa.

Ábyrgðarhluti Sjálfstæðisflokks er ekki minni en hann myndar nú á ný meirihluta eftir viðræður við einn mann, án þess að hirða um hvort hann hafi stuðning næsta varamanns síns. Það gerir að verkum að meirihlutinn er engu traustari en sá sem féll.

Hallveig leggur til við Alþingismenn að þeir íhugi alvarlega að grípa til þess örþrifaráðs þegar þingið kemur saman í september, að setja bráðabirgðalög svo kjósa megi aftur í borginni.


Þessi ályktun er engan veginn tæmandi yfir það sem mér liggur á hjarta. En eftir því sem atburðarrás síðust daga og síðasta árs síast betur inn þeim mun minni tilgang sé ég í því að velta vöngum yfir síendurtekinni valdníðslu og yfirgangi sitjandi fulltrúa í borginni - þau láta ekki segjast - taka ekki þátt í samræðu við umheiminn.

Reykvíkingar, það er kominn tími til að snúa vörn í sókn!

Rísum upp úr svaðinu og krefjumst þess að fá að kjósa á ný!

Munið að valdið er ekki þeirra heldur frá okkur komið, við erum uppspretta valdsins, valdið er fengið að láni til að vinna að okkar hag.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Valdið til fólksins - blásum til kosninga!

Ég hef fengið mig full sadda á lýðskruminu í borginni, ég sé enga aðra lausn en nýjar kosningar - ekki einu sinni Tjarnarkvartettinn góða ég vil valdið aftur til fólksins í borginni!

Ég er búin að gefa upp vonina að nokkur nái til sitjandi borgarstjórnar eða að hún nái sönsum í bráð. Því þarf að beina spjótunum að alþingi, krefjast þess að þegar í stað verði sett bráðabirgðarlög til breytingar á kosningalögum til sveitastjóna sem færa valdið aftur í hendur uppsprettu þess og gera Reykvíkingum kleift að efna til nýrra kosninga í borginni.

Lýðræðið fótum troðið
Sá meirihluti sem nú tekur við er fjórði meirihlutinn sem myndaður er á þessu
kjörtímabili og er það þó ekki nema hálfnað, það sér hver maður að hver sem lendingin verður þá verður staðan áfram brothætt, eina lausnin er að efna til nýrra kosninga og leyfa Reykvíkingum að meta hver sé enn þess verðugur að fara með vald þeirra.

Lýðræðið hefur verið fótum troðið og hagur borgarbúa hefur æ ofan í æ vikið fyrir sérhagsmunaplotti sem endurspeglast í rifrildum um stóla og völd. Athyglisvert er að nú í vetur hafa 3 af 5 kjörnum oddvitum flúið af hólmi eftir að hafa verið vændir um að fara illa með það vald sem þeim var treyst fyrir, oddvitar xD og xB sem mynduðu fyrsta meirihlutann og svo nú síðast Ólafur F. fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur.

Þetta þýðir að þeir oddvitar sem standa fyrir stólahrókeringunum nú hafa ekki einu sinni umboð kjósenda sinna til að leiða sína lista. Það hlýtur því að blasa við að
grundvöllur valdsins er hruninn, grunnuppspretta valdsins eru íbúar Reykjavíkur, ef við ætlum að halda þeim titli að kallast lýðræðisríkið þá er varla hjá því komist að efna til nýrra kosninga.

Allt þetta mál endurspeglar algjört virðingaleysi fyrir Reykjvíkingum og
sveitastjórnarstiginu í heild. Það má vera að starf borgarfulltrúa hafi hér á árum áður talist léttvægt og nánast hobbý veltengdra manna en nú eru breyttir tímar. Ríkið hefur flutt hvern málaflokkinn á fætur öðrum yfir til sveitastjórna á síðust árum og áratugum, veigamiklir málaflokkar er halda uppi grunnstoðum þjóðfélagsins og halda utan um nær alla nærþjónustu fólksins í landinu. Sveitastjórnarstigið hefur því heldur betur vaxið sem og mikilivægi hlutverks borgarfulltrúa og borgarstjórnar í lífi og starfi landsmanna.

Alþingi þarf að bregðast við
Það skýtur því skökku við að alþingi beri ekki meiri virðingu fyrir þessu stigi en svo að ekki eru varnaglar til að bregðast við lýðskrumi líkt og átt hefur sér stað í Reykjavík í vetur og hefur ekki séð tilefni til þess að vernda íbúa þessa lands fyrir ofríki valdsjúkra sérhagsmunaseggja líkt og nú stjórna borginni.

Enn annað dæmi um þetta virðingarleysi er að fjöldi borgarfulltrúa hefur staðið í stað í yfir hálfa öld þrátt fyrir að tilfærslur verkefna til sveitastjórna og fjölgun íbúa hafi í för með sér margföldun verkefna.

Borgarmálin í Reykjavík smámál?
Svo láta menn eins og það sé smámál að Reykjavík sé í algjörri stöðnun og fljóti um stjórnlaus svo mánuðum skiptir og enginn vinnufriður ríki á einum stærsta vinnustað
landsins. Það vill svo til að Reykjavík er ekkert venjuleg borg, það vill svo til að í henni búa 1/3 hluti þjóðarinnar svo stjórnleysi í borginni þýðir ekkert annað en stjórnleysi á Íslandi. Ef nú er ekki tilefni til að bregðast við í flýti með setningu bráðabirgðalaga þá veit ég ekki hvenær tilefni ætti að vera til þess.
Það liggur á að koma lýðræðinu og íbúum þessa lands til varnar!

Sýnum lýðræðinu virðingu, björgum réttarörygginu og kjósum á ný í
Reykjavík!!