fimmtudagur, 31. janúar 2008

Persepolis


Ég sá æðislega mynd í gær, Persepolis, mæli með henni en síðustu sýningar eru á franskri kvikmyndahátíð í Háskólabíó í kvöld.

Ég man ekki eftir að hafa farið á teiknimynd fyrir fullorðna áður, virkilega skemmtilegt form, mér finnst sagan verður sterkari því hún verður meira aðalatriði og maður lifir sig ef eitthvað er meira inní myndina. Kannski er það eins og með bókina, það er oft betra þegar eitthvað er skilið eftir fyrir ímyndunaraflið en líka það að þetta form býður uppá að farið sé hraðar yfir sögu og mögulegt að sýna hlutina á beinskeittari hátt en ella.

Það er t.d. æðislegt að sjá hvernig ástin er myndgerð í myndinni, hún verður ástfangin, þau svífa um á blómabeði bókstaflega, það styrnir af fallegum elskhuganum og allt gengur eins og í draumi. En svo eftir að hann heldur framhjá henni fer hún yfir sömu sögu aftur í huganum, þá er elskhuginn hrikalega ljótur, andfúll, klaufalegur, allt er hálf vandræðanlegt og þau passa bara ekki saman, hún bókstaflega ælir þegar hún les það sem hann skrifar osfrv. hrikalega kómískt.

Já, svona er þetta, ástin er blind og biturleikinn sviptir hulunni frá augum okkar og bætir um betur af svörtu ;)

Þessi saga hrífur mann svo sannarlega með sér, segir frá breytingum í Íran síðustu áratugi, kvennakúgun og áhrifum stríðs og bókstafstrúar. Sagan varpar líka ljósi á það að lífshamingjan er ekki endilega undir utanaðkomandi aðstæðum komin, hana er ekkert frekar að finna á friðartímum og oft getur jafnvel verið auðveldara að finna lífsþróttinn þegar á móti blæs.

Ég hef oft velt þessu fyrir mér eins og bara með sjálfa mig og aðra Íslendinga í svipuðum sporum og ég, við höfum í raun allt til alls, lífsbaráttan hér er engin lífsbarátta í orðsins fyllstu merkingu, sérstaklega ef við berum hana saman við þróunarlöndin eða baráttu þeirra sem búa á stríðshrjáðum svæðum.

Er sókn okkar í spennu, sjálfseyðingarhvöt þeirra sem leiðast út í eiturlyf, harkan og drápseðlið í viðskiptalífinu þar sem allt snýst um að drepa samkeppnina, lífsgæðakapphlaupið og eltingaleikur við gerviþarfir til að uppfylla gervivæntingar ekki bara okkar þörf fyrir einhverskonar stríð? okkar leit að tilgangi, einhverju til að berjast fyrir?

En þó spennan veiti okkur vellíðan rétt á meðan við erum á brúninni, rétt á meðan adrenalínið er enn að pumpast út í blóðið og við hættum okkur aðeins lengra, þá er sú sigurvíma ekki varanleg. Svo þegar öllu er á botninn hvolft þá komumst við kannski að því eftir alla leitina að lífshamingjuna er ekki að finna í utanaðkomandi aðstæðum – en við áttum okkur kannski ekki á þessu fyrr en við höfum reynt hvort tveggja og lítum til baka.

Jahérna.... bingó... lausnin er fundin... ég hef fundið leiðina að lífshamingjunni hér og nú... við þurfum að hætta að leita hennar í veraldlegum áþreifanlegum hlutum og leita þess í stað inná við ;)

Já ég er með þetta allt á hreinu – eftirleikurinn hlýtur að vera léttur úr þessu :)

Góðar stundir

Nýbakaður íbúðareigandi :)

Já, ég er nú formlega orðin íbúðareigandi, þ.e. ég og bankinn réttara sagt :)Pínkulítil og sæt risíbúð akkúrat í stíl við mig - orðin mín :)

Þetta er auðvitað pínu skerí, sérstaklega í ljósi forsíðufréttar Fréttablaðsins í gær - en ekki er leigumarkaðurinn neitt kræsilegri og svona íbúð ekki á hverju strái - það er kominn tími á þetta :)

miðvikudagur, 30. janúar 2008

Með allt niðrum sig í NÁÐHÚSI Reykjavíkur

Þráinn Bertelsson er orðheppinn að vanda í bakþönkum sínum á baksíðu Fréttablaðsins á mánudaginn en hann gerir þar skrípaleikinn í Ráðhúsinu að umtalsefni sínu.

Hann gerir góðlátlegt grín að sófavæðingu samfélagsins og bendir á skoplegan hátt á fáránleika umræðunnar um að mótmælin í Ráðhúsinu hafi verið ofbeldi og aðför að lýðræðinu og svo slaufar hann með þessu:

Leiðtogar almennings í Ráðhúsinu eiga rétt á að fá að vera í næði fyrir borgarbúum. Ráðhúsið er þeirra náðhús.(Náðhús er staður þar sem fólk á heimtingu á að vera í friði með allt niðrum sig).

Snillingur :)

Þreytt umræða en þörf vegna vanhæfi fjölmiðla!
Ég get rétt ímyndað mér að margir séu orðinir nokkuð þreyttir á þessari umræðu og ef til vill er húmorinn besta leiðin til að nálgast þetta mál núorðið þar sem það stendur ekki steinn undir steini í umræðunni lengur. Sjálfhverfa íslenskra fjölmiðla kemur í veg fyrir að þeir rýni í staðreyndir málsins, Mogginn fer þar fremstur í flokki með Styrmi við stjórn með sína strámenn og moldarský. Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn hins nýmyndaða meirihluta hafa engan málstað að verja svo þeir, líkt og Mogginn, keppast við að draga athyglina frá kjarna málsins með gervirökum eins og þeim að væla yfir því hvurslags ofbeldi og aðför að lýðræðinu mótmælin voru - eins og lýðræðið snúist ekki um neitt bitastæðara en fundarsköp Hönnu Birnu.

Þegar strámennirnir hafa verið felldir og vælinu, biturleikanum og hitanum hefur verið skolað burtu þá stendur eftir sú staðreynd að kjörnir fulltrúar stóðu sig ekki í stykkinu, gleymdu að hafa hag borgarbúa að leiðarljósi í óðagoti og eiginhagsmunapoti. Eftir standa borgarbúar algjörlega valdalausir, ekki bjóða sveitastjórnarlögin uppá kosningar á ný ef allt fer á verri veg og við okkur blasir stjórnarkreppa, reglur um borgarstórn eru ónákvæmar og skilja eftir mikinn vafa í núverandi stöðu þar sem varamaður borgarstjóra styður ekki meirihlutann - stjórnsýsla Reykvíkinga er veik!

Vantar öryggisventil
Sú spurning vaknar óneitanlega hvort ekki ætti að tryggja borgurum fleiri úrræði til að tempra vald stjórnvalda ef þörf er á. Hvort ekki ætti að vera svipaður öryggisventill á sveitastjórnarstigi og er í landsmálunum svo að hægt sé að blása til nýrra kosninga ef stjórnsýslan er óstarfhæf og færa þannig valdið á ný til uppsprettunnar ef kjörnir fulltrúar misbeita því eða eru ekki færir um að mynda starfhæfa stjórn. Við höfum slíkan öryggisventil, málskotsrétt forseta, í landsmálunum og umræður í stjórnarskrárnefnd hafa jafnvel verið á þá leið að réttast væri að bæta þar við tóli í fang kjósenda, þ.e. að þeir geti sjálfir blásið til nýrra kosninga ef nógu stór hluti þeirra sækist eftir því.

Tjáningarfrelsið er eina vopnið sem fólk hefur í dag til að tempra vald stjórnvalda og koma á framfæri óánægju sinni. Ef kjörnir fulltrúar misnota vald sitt og kasta lýðræðislegum vinnubrögðum fyrir róðann þá er það okkar skylda að láta í okkur heyra. Lýðræðisleg vinnubrögð eiga að einkennast af samræðum og samvinnu kjörinna fulltrúa, gegnsærri, upplýstri og faglegri ákvarðanatöku. Þessi gildi hafa öll verið þverbrotin endurtekið af borgarfulltrúum Sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili, sem og Ólafi F og Binga. En þær staðreyndir ætla ég ekki að reka hér, það væri efni í heila ritgerð.

Vildi óska að þau hættu þessu rugli!
Ég vildi glöð leggja þetta mál á hilluna og óska nýjum meirihluta velfarnaðar þar sem borgarbúar þurfa einmitt verulega á því að halda að nú sé hafist handa við að vinna að hag þeirra. En það er bara erfitt þar sem nýr meirihluti heldur áfram að klúðra, viðist ekki læra af reynslunni. Þeir virðast enn við sama heygarðshornið, sama fljótfærni, óðagot, óvandvirkni og ófagmennska heldur áfram að einkenna verk þeirra. Eins og t.a.m. skipanir þeirra í barnaverndarnefnd, en þessi nefnd heldur utan um mjög viðkvæm mál og því þarf sérstaklega að vanda til skipana í hana.

Ég er ansi hrædd um að ef fyrirtæki í samkeppni á markaði, af svipaðri stærðargráðu og Reykjavíkurborg, myndi viðhafa önnur eins vinnubrögð og Sjálfstæðismenn hafa sýnt í borginni það sem af er þessa kjörtímabils - þá liði ekki á löngu áður en það myndi heltast úr lestinni og stefna í þrot.

Aftur til fortíðar
Það er leitt að borgarbúar sitji uppi með Gamla góða Villa með sín fornfálegu vinnubrögð. Framtíðinni er frestað með því að negla niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni, velferðin sett á bið og hörðu málin tekin við - velferðarmálin eru bara auka. Mál nr. 1 og 2 á forgangslista þeirra eru skipulagsmál meðan mannekla gerir það að verkum að vart er hægt að halda uppi nærþjónustu borgarinnar og það getur hægt all verulega á hjólum atvinnulífisins í borginni. Ekki höfum við efni á að það hægi á þar sem þetta eru viðkvæmir tímar í efnahagsmálum, kjaramningar eru lausir og óróleiki á fjármálamörkuðum er mikið áhyggjuefni.

En ég ætla að reyna að vera bjartsýn, vekja í mér Pollýönnuna - minnihlutinn mun standa vaktina og það eru ekki nema rúm 2 ár í næstu kosningar - how low can they go?

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Styrmir býr til strámann...

Má til með að vekja athygli á þessari grein, Styrmir býr til strámann, ef hún hefur farið framhjá einhverjum!

mánudagur, 28. janúar 2008

Ólafur sjálfur haldinn verstu fordómunum?

Ég var að horfa á Mannamál frá því í gær þar sem Ólafur F var viðmælandi Sigmundar Ernis. Þar ræddi Ólafur atburði síðustu viku en þegar röðin kom að veikindum hans stakk það mig að hann virtist hræddur við að viðrukenna þunglyndi/geðveiki og sagðist aðeins hafi verið "niðurdreginn" og fleira í þeim dúr.

Þetta er svo sem svipuð lína og Ólafur hefur verið með alla vikuna en ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er frábært innlegg sem Harpa nokkur kom með í þessa umræðu, þar sem hún lýsir því á bloggi sínu hvernig þessi orð hans, og fleiri sem hann hefur látið falla, horfa við þeim sem sjálfir glíma við geðsjúkdóma.

Ólafur vælir og vælir yfir þeim fordómum sem hann mætir en er sjálfur uppvís af verstu fordómunum!

Ég trúi því að sú gagnrýnisalda sem yfir hann hefur gengið sé ekki fyrir geðsýkina heldur fyrst og fremst þau vinnubrögð og óheilindi sem hann viðhafði - þó Mogginn og fleiri viriðst vilja snúa því á þann veg. En með því að halda áfram að fara í kringum sannleikann um geðheilsu sína, eins og hún sé svo skammarleg að ekki megi ræða hana, þá skaðar hann ekki aðeins eigin trúverðugleika heldur gerir öðrum geðsjúkum óleik - ótrúlegt af manninum verandi sjálfur læknir, hann ætti nú að vita betur!

Það er auðvitað staðreind að geðsjúkir hafa í gegnum tíðina mætt miklum fordómum í samfélaginu en ég held að það horfi allt til betri vegar, að þeir séu ekki það tabú sem þeir voru undir lok síðustu aldar, viðhorf Ólafs eru viðhorf gamla tímans - eins og einnig á við um megnið af hans pólitísku skoðunum, en það er önnur Ella :) Þetta er eflaust því að þakka að fleiri og fleiri dæmi eru um að opinberar manneskjur tali opinskátt um geðheilsu sína án þess að það þyki neitt tiltöku mál. Ekki var Sigursteini Mássyni, fyrrverandi formanni Öryrkjabandalagsins, t.a.m. vantreyst eftir að hann steig fram og talaði opinskátt um sína geðsýki - það er frekar að það hafi verið á hinn veginn, að hann hafi vaxið í virðingu. Það er því afturför að jafn áhrifamikill maður og borgarstjór Reykjavíkur komi fram með þessum hætti.

En þetta á kannski bara eftir að leiða eitthvað gott af sér, allt of algegnt er að fólk leiti sér ekki hjálpar vegna geðrænna vandkvæða fyrr en allt of seint eða þegar komið er í óefni, einmitt vegna þessa - eigin fordóma - fyrsta skrefið í átt til bata er einmitt að yfirstíga þá, til að geta svo mætt sjúkdómnum sjálfum.

Eða eins og á við um svo ótalmargt í þessu lífi - stærsta hindrunin sem við mætum erum við sjálf :)

sunnudagur, 27. janúar 2008

Íslensk kvikmyndagerð á flugi :)

Ég var að horfa á Pressuna, nýja íslenska spennuþáttinn á Stöð 2, frábær þáttur sem kemur mér á óvart í hverri viku með því að toppa sig. Virkilega vel gerður, vel leikinn, skemmtilegur, heldur manni spenntum og er í senn ágætis þjóðfélagsspegill.

Tekið er á siðferðsilegum spruningum sem mikið hafa verið í umræðunni hér síðustu ár, sígildir árekstrar tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífsins, hvar mörk liggja, hlutverk fjölmiðla og hversu langt þeir geta gengið án þess að fara yfir strikið.

Málefni fjölskyldunnar fléttast líka skemmtilega inní þáttinn, aðal söguhetjan er útivinnandi einstæð móðir, kvenkyns hvunndagshetja, faðirinn hálf vanhæfur bóhem, einelti og flóknar fjölskyldur, að ógleymdu siðferði í viðskiptum, hvítflibbabrot, svik, morð og allur pakkinn ;)

Foreldrar mínir geta því glaðst yfir því að fá mig að minnstakosti í vikulega heimsókn á sunnudagskvöldum í vetur :)

Það virðist vera mikil mikil framför og gróska í íslenskri kvikmyndagerð um þessar mundir og Stöð 2 er vissulega að leggja sitt lóð á vogaskálarnar og á gott hrós skilið!

*******

Ég fór líka á Brúðgumann í síðustu viku, hún er frábær einu orði sagt, yndislegt sögusviðið sem annars vegar er í Grjótaþorpinu og hins vegar í Flatey - yndislega fallegt, ég var næstum flutt til Flateyjar í huganum, fannst vel koma til greina að flýja skarkalann, sinna listinni og njóta þess að velta mér uppúr morgundögginni á Jónsmessunótt :)

Þessi mynd er vel gerð, vel leikin, fyndin og alvarleg í senn. Tónlistin kórónaði svo verkið, gömulu og ný íslensk dægurlög klædd í nýjan búning - blanda sem getur ekki klikkað.

Þessi mynd má einfaldlega ekki fara framhjá þér :)

Þá á ég bara eftir að skella mér á leikritið sem ég hef heyrt góða hluti um.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Látum í okkur heyra!!

Stöðvum ruglið í Reykjavík:
Yfirlýsing frá ungliðahreyfingum "Tjarnarkvartettsins"

Ungliðahreyfingar Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og ungir
stuðningsmenn Margrétar Sverrisdóttur ítreka mikilvægi samstöðu
félagshyggjuaflanna í borginni og hvetja þau til þess að sameinast gegn
upplausn í borgarstjórn Reykjavíkur út kjörtímabilið. Þessi samstaða er
lykilatriði í því að úthýsa ruglinu úr ráðhúsinu.

Komið hefur í ljós að þessi skyndilegu og ástæðulausu umskipti byggja ekki á
málefnaágreiningi heldur eru til komin vegna þess að sjálfstæðismenn í
borgarstjórn eru tilbúnir að gera allt sem þarf til að ná aftur völdum eftir að
hafa hrökklast frá vegna hneykslismála.

Nýr meirihluti verður auk þess óstarfhæfur vegna ósamstöðu meðal
Sjálfstæðismanna og manneklu innan klofins F-lista sem eykur enn á
óstöðugleikann í stjórnkerfi Reykjavíkur.

Reykvíkingar eiga betra skilið en að borgarstjórn þeirra leysist upp í
baktjaldamakk og valdatafl. Nýr meirihluti var augljóslega myndaður á röngum
forsendum og enn er hægt að hætta við. Ungliðahreyfingarnar hvetja alla sem
mögulega geta til þess að mæta á mótmæli Reykvíkinga fyrir framan ráðhúsið,
klukkan 11.45 á morgun fimmtudag, og koma skoðun sinni á þessu athæfi á
framfæri áður en fundur borgarstjórnar hefst.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Yfirskrift nýs meirihluta öfugmæli!

Jahérna, þrátt fyrir annir þá get ég nú ekki annað en hripað niður nokkur orð um sviptingar í borgarstjórn Reykvíkinga þessa dagana. Við í UJR ályktuðum líka um málið í gær og má sjá ályktunina hér :)

Nýr meirihluti hefur litið dagsins ljós... eða hvað? er hann starfhæfur? Það er stóra spurningin.
Yfirskrift málefnasamnings nýs meirihluta er velferð og öryggi... Öryggi fyrir hverja? Það er ýmislegt hægt að segja um þennan nýmyndaða meirihluta og Ólaf Eff en ég held að öryggi sé ekki það sem kemur fólki fyrst í hug. Meirihluti sem stendur og fellur á því hvort nýr borgarstjóri, sem er nýsnúinn aftur úr veikindaleyfi sem varði á annað ár, mæti í vinnuna uppá hvern einasta dag - við skulum bara vona að hann verði ekki veðurteptur eða fái í magann hvað þá meir.

Nei það er því miður augljóst að hagur borgarbúa er ekki það sem drífur þessa kjörnu fulltrúa áfram heldur eiginhagsmunir - enn og aftur! Því eins og alþjóð man þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna í borginni gambla með vald sitt og stefna stöðugleika borgarinnar í hættu blindaðir af eiginhagsmunum. Það sem virðist skipta þá öllu máli er að troða hina persónulegu framabraut, hefndir, stólar og völd.

Ég hef af þessu verulegar áhyggjur fyrir hönd borgarbúa og finnst algjörlega óviðundandi að stjórnmálamenn, sem eru kosnir sem fulltrúar almennings til að gæta hagsmuna þeirra, bjóði kjósendum sínum upp á aðra eins óvissu og óöryggi. Á tímum sem þessum þar sem kjarasamningar eru lausir, fjárhagslegur óróleiki ríkir og erfitt er að halda uppi nausynlegustu nærþjónustinn sökum manneklu þá er stöðuleiki í stjórnsýslunni sérstaklega mikilvægur. Margir spá þessum meirihluta stuttum líftíma en það er ekkert grín fyrir borgarbúa ef sú spá reynist rétt því ef þetta fellur um sjálft sig og ekki tekst að mynda starfhæfan meirihluta þá er ekki einu sinni mögulegt að boða til nýrra kosninga líkt og hægt væri ef um landsmálin væri um að ræða.

Eitt er víst að tiltrú almennings á stjórnsýslunni og stjórnmálamönnum vex ekki við þetta og yfirskrift nýs meirihluta er vægast sagt öfugmæli!

Það verður forvitinlegt að sjá skoðanakannanir um ánægju almennings með þessi skipti, því þó myndun fráfarandi meirihluta hafi einnig borði skjótt að og framganga Binga hafi verið umdeild virtust Reykvíkingar samt sáttir við niðurstöðuna - en um 58% studdu þann meirihluta í skoðanakönnunum.

Ég er ekkert svo viss um að einu sinni Sjálfstæðismenn styðji þennan meirihluta. Mínir heimildarmenn innan Ungra Sjálfstæðismanna hörmuðu ekki brotthvarf Villa úr borgarstjórnarstólnum á sínum tíma þar sem hann var þeim alls ekki að skapi. Þeir sögðu Villa gamaldags stjórnmálamann, útbrunninn, íhaldssaman, kerfiskall sem færði ráðhúsið aftur um tugi ára hvað vinnubrögð og stjórnarhætti varðaði og að hann væri ekki Sjálfstæðismaður fyrir fimmaura! Þeim fannst því Dagur skárri kostur ef eitthvað var, hann myndi að minnstakosti færa stjórnsýsluna og vinnubrögðin í ráðuneytinu til nútímans á ný.

En nú sitja þeir greyin uppi með Gamla góða Villa á ný og fá að auki annan og ekki síður íhaldssamari furðufugl í kaupbæti - Ólaf Eff, en þeir hafa starfað saman í borgarstjórn í yfir 20 ár - eiga það að vera meðmæli???

Margir ungir Sjálfstæðismenn áttu erfitt með að berjast af sannfæringu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum sökum þessa og ég efast um að það verið neitt skárra í þeim næstu með skrípaleiki þessa vetrar og þennan meirihluta á bakinu.

Jæja, við eigum nú eftir að sjá hvernig þetta fer allt saman, hvort Ólafi takist að mæta til vinnu og manna nefndir sínar og ráð, hann hefur víst ekki úr miklu að moða hann getur auðvitað setið sjálfur í forsvari í þessum ráðum þótt óeðlilegt sé og dóttir hans getur ef til vill stytt fæðingarorlof sitt og setið sem nefndarmaður í nokkrum nefndum.

********

Það verður fundur um málið í Samfylkingarhúsinu að Hallveigarstíg í kvöld kl. 20:30 og verður áhugavert að heyra hvað Dagur hefur um stöðuna að segja :)

********

Svo hvet ég alla sem misbýður þessi vinnubrögð til að skrifa undir þennan undirskirftalista og mæta í ráðhúsið á morgun, fimmtudag kl. 11:45 og láta í sér heyra!

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Leiðin að bættu menntakerfi?

Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra lagði fram nú á haustþingi mjög ítarleg frumvörp til breytingar á íslenska skólakerfinu. Hún segir að við samningu þessara frumvarpa um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafi verið leitast við að horfa til þessara þriggja skólastiga sem heildar, auka samræmi og skapa svigrúm jafnt innan sem milli skólastiganna til þess að mæta breytilegum þörfum skólabarna.

Mun þetta færa okkur betra menntakerfi?
Mikil vinna hefur farið í undirbúning þessara frumvarpa á síðustu árum, mikið fundað, fleiri hundrað umsagnir fengnar, leitað samanburðar við önnur lönd ofl., en munu þessar breytingar færa okkur betri skóla? Það er eflaust margt gott í þessum frumvörpum eins og fögur fyrirheit um samþætting skólastiga, bætta menntun kennara, að dregið sé úr prófamiðun og miðstýringu, einstaklingsmiðaðar og að kostnaður af skyldunámi sé nemendum að kostnaðarlausu.

En hversu langt fleyta þessar breytingar okkur? eru þetta helstu vandamál menntakerfisins í núverandi mynd?

Engin lausn á helsta vandamáli íslenska menntakerfisins!
Ég er ansi hrædd um að þau vandamál sem á er tekið í þessum frumvörpum séu smávægileg í samanburði við áhrif mannekluvanda allra skólastiga á gæði menntunarinnar sem og kulnun og flótta hæfra kennara og uppaldenda úr stéttinni. Lagt er til að kennaranámið verði lengt, margir fagna því og álykta svo að það tryggi hækkun launa og auki aðsókn kennara aftur í stéttina en aðrir telja að sú aðgerð geti verið tvíbent.

Guðbjörg R. Þórisdóttir bendir einmitt á það í grein sinni í Morgunblaðinu í gær, þann 14.01.08, og segir að ef haldið verði áfram að leyfa ráðningar leiðbeinenda í störf grunnskólakennara samhliða því að auka menntunarkröfur kennara til muna sé verið að stuðla að gengisfellingu kennarastarfsins.

Hækkun launa aðal málið!
Ég vil nú kannski ekki ganga jafn langt og Guðbjörg en ég get tekið undir að auknum kröfum verði að fylgja fleira og helst af öllu veruleg hækkun launa til að þessar auknu kröfur skili sér í betra starfi. Þá erum við loks komin að kjarna málsins að mínu mati, LAUNUNUM, við verðum að fara að horfast í augu við það að ef við viljum bæta menntakerfið þá verðum við að gera því kleift að keppast um hæfsta stafsfólkið. Kennarar búa yfir mikilli stjórnunarreynslu og eru því eftirsóttir starfskraftar í hin ýmsu störf. Eins og staðan er í dag á menntakerfið ekki séns í markaðsöflin í þessum efnum, það heufr nær engan svegjanleika til að hygla þeim sem skara framúr í starfi og launin eru yfir það heila allt of lág. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir mikla ásókn í kennaranám virðist framboð umsókna til leik-, grunn- og framhaldsskóla ekki aukast í sama mæli.

Hvers virði er uppeldi og menntun komandi kynslóða?
Viljum við að komandi kynslóðir séu mótaðar af afgöngum markaðsaflanna og ófaglærðum starfsmönnum í bland við einstaka hugsjónamanneskju sem býr svo vel að geta/vilja látið sig hafa kennaralaunin? Þetta er kannski svolítið ýkt mynd sem ég dreg upp en samt ekki svo fjærri sanni. Ég var til að mynda aðeins 19 ára og nýskriðin uppúr menntaskóla þegar ég var ráðin sem íþróttakennari 1.-10. bekkjar í grunnskóla hér á höfuðborgarsvæðinu og var falið ári seinna, eða 20 ára, að starfa sem umsjónakennari 8. bekkjar og kenndi að auki nokkur bókleg fög. Án þess að gera lítið úr eigin starfsframlagi á þessum tíma þá finnst mér þetta ekki viðunandi ástand og þess ber að geta að ástandið hér á höfuðborgarsvæðinu er þó skárri en úti á landi.

Ef Ísland ætlar að halda sér í fremstu röð eða að minnsta kosti verja núverandi stöðu þá verðum við að snúa þessu við, gera menntastofnunum kleift að bjóða svo vel að mannauðurinn keppi um stöður þess en ekki öfugt. Ég held að kennarastétt uppfull af eldmóði og starfsánægju sé leiðin að bættu menntakerfi :)Annað kvöld boða Ungir Jafnaðarmenn og Samfylkingarfélagið í Reykjavík til opins fundar um frumvörp menntamálaráðherra um breytingar á skólakerfinu. Fundurinn verður haldinn að Hallveigarstíg 1, kl. 20:30 og eru allir velkomnir.

Þetta er einstaklega gott tækifæri fyrir fólk sem lætur sig þessi mál varða til að hafa áhrif á málin áður en þau verða tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu. Þær Katrín Júlíusdóttir þingkona og Oddný Sturludóttir munu vera með framsögu og svo verður tími fyrir opnar spurningar og lýðræðislegar umræður :)

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest :)

mánudagur, 14. janúar 2008

Stemning á flokksstjórnarfundi

Helgin að baki og kominn mánudagur á ný, rútínan að slípast eftir jólaóregluna - eins og jólafríið er nú notalegt þá finnst mér alltaf jafn gott þegar allt fellur í fastar skorður á ný :)

Ég sat flokkstjórnarfund Samfylkingarinnar nú um helgina, þetta var virkilega skemmtilegur fundur og vel mættur en um 100 manns voru mætt í Hlégarð kl. 9 á laugardagsmorgni til að taka þátt í nefndarstörfum málefnanefnda, vel yfir 200 manns voru á fundinum þegar best lét. Það var mikill stemning og kraftur í fólki enda ekki nema von þar sem nú eru spennandi tímar fyrir Samfylkinguna sem fær nú í fyrsta sinn tækifæri til að sýna styrk sinn í verki í ríkisstjórn og er á sama tíma í meirihluta víða um land í sveitastjórnum. Stjórnarsamstarfið fer vel af stað og á þessu hálfa ári sem af er stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar hefur nú þegar um 70% af verkum stjórnarsáttmálans verið komið á framkvæmdarstig.

Það var virkilega gaman að heyra framsögur þeirra Ingibjargar og Dags, þau fögnuðu árangri Samfylkingarinnar á síðasta ári en hún hefur náð því markmiði sínu að komast til áhrifa. Dagur benti á að þó við hefðum komið flokknum þangað sem við ætluðum okkur þá væri aðal verkið eftir, baráttan fyrir því að koma Íslandi á þann stað sem við viljum sjá það og að við yrðum að vera óþolinmóð í garð úrbóta og koma stefnumálum Samfylkingarinnar í framkvæmd.

Ingibjörg talaði um tvö stór mál sem við stæðum frammi fyrir nú og yrði að leysa, staða kjaramála á almennum vinnu markaði og óróleiki á fjármálamarkaði. Degi var einnig tíðrætt um kjaramálin sem mikilvægt er að greiða úr og jafna hlut þeirra sem verst hafa það. Þau töldu bæði koma til greina að grípa til stjórnvaldsaðgerða í þeim málum og að samvinna verkalýðsfélaga og stjórnvalda væri mikilvæg. Breytingar á húsnæðismálum gætu spilað stóran þátt og kæmi þá til greina að nýta hugmyndir úr nefnd Jóhönnu sem vinnur nú að því að finna lausnir á þeim málum.

Það var auðvitað ýmislegt fleira rætt og virkilega skemmtilegt að hlusta á ráðherra sitja fyrir svörum eftir að fundinum var lokað fyrir fjölmiðlum, öll spjót beindust að Kristjáni Möller líkt og á síðasta fundi en þau mál sem stendur hvað mestur styr um þessi misserin heyra flest undir hann, þ.e. Sundabraut, Reykjavíkurflugvöllur og svo eru Sveitastjórnarmálin að auki komin undir samgönguráðherra og þar með kjaramálin, tekjuskipting, manneklumálin ofl.ofl. svo voru orkumálin greinilega enn ofarlega í hugum fólks og verður því áhugavert að fylgjast með nýja frumvarpinu hans Össurar.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Að mæta lífinu opnum örmum

Ég var spurð að því um daginn hvort ég ætti mér lífsmottó eða uppáhalds tilvitnun. Ég átti erfitt með að svara þessu þrátt fyrir að hafa alla tíð haft nokkuð gaman af slíku. Það er margt sem kemur upp í hugann, á lífsleiðinni grípur maður ýmsan viskumolann á lofti og nýtir sem innblástur og leiðsögn, en hvaða speki er í uppáhaldi fer nú líklega eftir því hverju maður stendur frammi fyrir hverju sinni.

Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvað við mörg hver eyðum allt of mikilli orku í að hafa áhyggjur af því sem við fáum ekki breytt eða að rembast við að breyta því sem ekki er á okkar valdi að breyta. Reyna að breyta því hvernig hvernig aðrir haga sér og sínu lífi, hafa áhyggjur af því hvað aðrir gætu verið að hugsa og gera eða jafnvel hafa áhyggjur af óumflýjanlegum hlutum eins og veðrinu og dauðanum.

Við eigum það til að festast í varnarstöðu með hnefana á lofti til öryggis ef ske kynni að við mætum mótlæti. Það sem ég held að gefist best og ég reyni að gera eftir fremsta megni er að mæta lífinu opnum örmum hvort sem um mótlæti eða meðbyr er að ræða eða eins og Forrest nokkur Gump hafði eftir móður sinni í samnefndri mynd - Life is like a box of chocolates, you never know what you're gonna get - Svo sannarlega orð að sönnu :)

Que sera sera, það verður og fer sem fer, hið ókomna enginn sér, que sera sera…

Það er ekki þar með sagt að við eigum bara að leggjast út af aðgerðarlaus eða flýja af hólmi þegar í harðbakka slær. Það sem ég á við er að ég held að það gagnist okkur illa að streitast á móti þegar við mætum andstöðu, held að það slái bara vopnin úr höndum okkar og geri það að verkum að við missum stjórn á okkar eigin hamingju. Ef við leggjum allt undir og tökum slaginn þá veltur hamingja okkar eða óhamingja á því hvaða leik aðrir leika og því hvernig slagurinn fer, útkoman er því ekki lengur á okkar valdi.

Ef við mætum hins vegar andspyrnu með eftirgjöf þá er það á okkar valdi að spila úr framhaldinu, við myndum rúm til að meta stöðuna og finna þá leið eða lausn sem við sjáum besta í stöðunni og fleytir okkur nær okkar óskadraumi :) Eftirgjöf og sókn í kjölfarið er því besta vörnin.

Lífið er eftir allt óútreiknanlegt svo sá hæfasti oft á tíðum sá sem er leikinn að haga seglum eftir vindi :) En við erum auðvitað misjafnlega fyrirkölluð og auðvelt er að falla í þá gryfju að láta hugann og hughrif hans hlaupa með okkur í gönur og draga okkur inní lýjandi áhyggjur og stríð.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Nýr staður, ný stund, nýtt blogg :)

Já, ég er óskrifað blað hér á Eyjunni – það er góð tilfinning :)

Svona ætti ég auðvitað að byrja hvern morgun, hverja stund, með hreinan striga fyrir framan mig, laus undan eigin sögu, laus við væntingar, kergju og kvaðir. Dagurinn í dag er eftir allt fyrsti dagur þess tíma sem ég á eftir ólifaðan og í raun það eina sem er. En það er meira en að segja það að lifa frjáls í núinu, veröld okkar flestra er svo rígbundin við tímann að við tökum varla eftir líðandi stundu, við látum fortíðina stjórna því hver við erum, gerum og getum, látum hana hamla okkur þrátt fyrir að hún hafi engan mátt til að hindra tilvist okkar í núinu. Hún er liðin tíð en samt ákveðum við á forsendum þess forskilnings sem hún hefur alið okkur hvert við ætlum og viljum.

Að þessu sögðu ætla ég að forðast það að skilgreina mig að ráði sem bloggara en setja þess í stað inn fyrstu færsluna af moggablogginu mínu síðan í haust en hún lýsir því að einhverju leiti af hverju ég blogga – sem er í stuttu máli til að deila mér með þér :)


Frelsi frá eigin sögu (08.09.07)

Ég er að lesa bókina Hugarfjötur eftir Paulo Coelho, þetta er kannski ekki hans besta bók en hann má eiga það að hann vekur mig alltaf til umhugsunar um lífð og tilveruna.

Þessi bók er um rithöfund sem leitar eiginkonu sinnar sem hvarf spolaust, eins og ávállt er bókin lituð af leit af sannleikanum um lífið, ástinni og örlögunum.

Ég ætla ekki að uppljóstra söguþræðinum fyrir þeim sem ekki hafa lesið bókina en segja ykkur frá skemmtilegri hugmynd sem heillaði mig.

Sagan berst af gömlum hirðingja sem er í dýrlingatölu á sléttum Kasakstan vegna töframáttar síns. Fjöldi manns leitar á fund hans til að þiggja ráð frá honum og sama gera sögupersónur að þessu sinni. Hann er spurður hvers vegna menn eru daprir. Hann segir svarið einfalt, að menn séu fangar sinnar eigin sögu og reynsla þeirra sé uppfull af minningum, hlutum og hugmyndum sem aðrir hafa plantað þar en ekki þeir sjálfir. Hann telur þetta byrgja mönnum sýn svo þeir sjái ekki eigin drauma, þekki ekki eigin langanir og haldi þeim þannig í fjötrum.

Þetta er vel í takt við það sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið, að við verðum að leita leiða til að koma auga á blekkingu hugans og sjá lífið og okkur sjálf í réttu ljósi, okkar sanna sjálf handan hugans. Hugur okkar hefur verið forritaður af menningu, trú, sögu skrifaðri af valdhöfum og síbreytilegum tískustraumum samfélagsins.

En það sem mér fannst áhugavert var lausnin sem hann benti á, hvernig við getum horfið frá þeirri sögu sem manni hefur verið sögð og eigin sögu - og lifað í nú-inu. Hann sagði lausnina felast í því að fara með söguna upphátt og í smæstu smáatriðum, endurtaka gömlu söguna aftur og aftur þar til hún hefur enga þýðingu fyrir okkur lengur. Þá fyrst kveðjum við það sem við vorum og myndum rúm fyrir nýja, óþekkta veröld – nýjar upplifanir – nýja upplifun á því hver við erum – þá fyrst getum við skapað sjálfan okkur upp á nýtt í okkar æðstu hugmynd um okkur sjálf. En hann segir ekki duga að láta þar við sitja heldur verðum við að fylla það rúm sem myndast með nýjum upplifunum, nýjum sögum – það er leiðin útúr dapurleikanum - þá vex ástin og þegar ástin vex, vöxum við með henni.

Þegar við getum sleppt tökunum á fortíðinni, hættum að gráta erfiðleika okkar - þá fyrst getum við lifað í nú-inu.

Ég held að þegar við eigum engan að sem við getum deilt með okkar dýpstu leyndarmálum eða treystum okkur einfaldlega ekki til að deila þeim með öðrum þá líður okkur illa, við erum föst, getum ekki byrjað að brjóta ísinn með því að deila sögu okkar, segja hana aftur og aftur, vaxa svo frá henni og þroskast.

Hættu að vera það sem þú varst og vertu það sem þú ert – í því felst frelsið í núinu :)

Gæti þetta verið ástæða þess að við komum endurnærð af vinafundi? Leitum sálufélaga, erum uppfull af orku þegar við finnum einhvern til að deila okkur með, byrjum að segja sögurnar sem við höfum þegar slitið okkur frá í bland við nokkrar sem við byggjum enn egó-ið okkar á og finnst enn mikilvægar til að heilla nýja elskhuga. Verður líf okkar innihaldsríkara og fyllra af því við færumst nær hinum aðilanum? eða af því við deilum með honum fleiri sögum, rýmum fyrir nýjum sögum og upplifunum - fáum þær síðan jafnóðum beint í æð frá hinum aðilanum?

Við blessunarlega þroskumst flest með árunum, við segjum ekki lengur sömu sögur af okkur og við sögðum í grunnskóla - ég efast um að ég muni segja framtíðar ástinni minni sömu sögur af bernskubrekum og fyrstu ástinni.

Það eina sem er víst í þessum heimi er að allt er breytingum háð.

Það er gott að tengjast annarri manneskju og fá tækifæri til að deila sér - ég held að það sé fátt sem nærir okkur meira. Það er eflaust það sem býr að baki máltækinu góða: „Betra er að gefa en þiggja“.

Ég held að það sé mikið til í þessu, þetta hefur að minnsta kosti reynst mér vel. Mín reynsla er sú að þeim mun einlægari sem ég er, þeim mun betur líður mér. Það hefur hreinsandi og léttandi áhrif á mig að ræða hlutina. Meira að segja þegar ég var að kenna í Kársnesskóla þá notaði ég eigið líf sem dæmisögu – deildi jafnvel með krökkunum leyndarmálum sem ég hafði ekki deilt með fólki sem stóð mér mun nær en umsjónanemendur mínir – fyrir mér þá mátti líf mitt vera opin bók ef það bara gagnaðist þeim – og það gagnaðist mér í leiðinni, þetta var liður í því að leysa mig undan eigin sögu. Að deila sögunni var að minnsta kosti skref í þá átt.

Svo er það töframátturinn sem felst í því að segja sögu sína, deila sér með öðrum - þ.e. að sagan kallar á sögur frá öðrum - það myndast gagnkvæmt traust sem losar fólk undan höftum aðskilnaðar sem einkennir nútmasamfélag.

Ég held að við mættum flest vera aðeins opnari, frjálslegri, einlægari – laus við blygðunarkennd, samviskubit og ótta.

Þetta vakti mig að minnsta kosti til umhugsunar um góða kosti bloggsins - hvatning til að byrja að blogga á ný :)

Kæru vinir, vandamenn, bloggarar og vafrarar nær og fjær, takk fyrir lesturinn, bloggiði, segið sögu ykkar, tjáiði ykkur, deilið ykkur og frelsið ykkur undan eigin sögu!