mánudagur, 28. janúar 2008

Ólafur sjálfur haldinn verstu fordómunum?

Ég var að horfa á Mannamál frá því í gær þar sem Ólafur F var viðmælandi Sigmundar Ernis. Þar ræddi Ólafur atburði síðustu viku en þegar röðin kom að veikindum hans stakk það mig að hann virtist hræddur við að viðrukenna þunglyndi/geðveiki og sagðist aðeins hafi verið "niðurdreginn" og fleira í þeim dúr.

Þetta er svo sem svipuð lína og Ólafur hefur verið með alla vikuna en ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er frábært innlegg sem Harpa nokkur kom með í þessa umræðu, þar sem hún lýsir því á bloggi sínu hvernig þessi orð hans, og fleiri sem hann hefur látið falla, horfa við þeim sem sjálfir glíma við geðsjúkdóma.

Ólafur vælir og vælir yfir þeim fordómum sem hann mætir en er sjálfur uppvís af verstu fordómunum!

Ég trúi því að sú gagnrýnisalda sem yfir hann hefur gengið sé ekki fyrir geðsýkina heldur fyrst og fremst þau vinnubrögð og óheilindi sem hann viðhafði - þó Mogginn og fleiri viriðst vilja snúa því á þann veg. En með því að halda áfram að fara í kringum sannleikann um geðheilsu sína, eins og hún sé svo skammarleg að ekki megi ræða hana, þá skaðar hann ekki aðeins eigin trúverðugleika heldur gerir öðrum geðsjúkum óleik - ótrúlegt af manninum verandi sjálfur læknir, hann ætti nú að vita betur!

Það er auðvitað staðreind að geðsjúkir hafa í gegnum tíðina mætt miklum fordómum í samfélaginu en ég held að það horfi allt til betri vegar, að þeir séu ekki það tabú sem þeir voru undir lok síðustu aldar, viðhorf Ólafs eru viðhorf gamla tímans - eins og einnig á við um megnið af hans pólitísku skoðunum, en það er önnur Ella :) Þetta er eflaust því að þakka að fleiri og fleiri dæmi eru um að opinberar manneskjur tali opinskátt um geðheilsu sína án þess að það þyki neitt tiltöku mál. Ekki var Sigursteini Mássyni, fyrrverandi formanni Öryrkjabandalagsins, t.a.m. vantreyst eftir að hann steig fram og talaði opinskátt um sína geðsýki - það er frekar að það hafi verið á hinn veginn, að hann hafi vaxið í virðingu. Það er því afturför að jafn áhrifamikill maður og borgarstjór Reykjavíkur komi fram með þessum hætti.

En þetta á kannski bara eftir að leiða eitthvað gott af sér, allt of algegnt er að fólk leiti sér ekki hjálpar vegna geðrænna vandkvæða fyrr en allt of seint eða þegar komið er í óefni, einmitt vegna þessa - eigin fordóma - fyrsta skrefið í átt til bata er einmitt að yfirstíga þá, til að geta svo mætt sjúkdómnum sjálfum.

Eða eins og á við um svo ótalmargt í þessu lífi - stærsta hindrunin sem við mætum erum við sjálf :)

Engin ummæli: