miðvikudagur, 23. janúar 2008

Yfirskrift nýs meirihluta öfugmæli!

Jahérna, þrátt fyrir annir þá get ég nú ekki annað en hripað niður nokkur orð um sviptingar í borgarstjórn Reykvíkinga þessa dagana. Við í UJR ályktuðum líka um málið í gær og má sjá ályktunina hér :)

Nýr meirihluti hefur litið dagsins ljós... eða hvað? er hann starfhæfur? Það er stóra spurningin.
Yfirskrift málefnasamnings nýs meirihluta er velferð og öryggi... Öryggi fyrir hverja? Það er ýmislegt hægt að segja um þennan nýmyndaða meirihluta og Ólaf Eff en ég held að öryggi sé ekki það sem kemur fólki fyrst í hug. Meirihluti sem stendur og fellur á því hvort nýr borgarstjóri, sem er nýsnúinn aftur úr veikindaleyfi sem varði á annað ár, mæti í vinnuna uppá hvern einasta dag - við skulum bara vona að hann verði ekki veðurteptur eða fái í magann hvað þá meir.

Nei það er því miður augljóst að hagur borgarbúa er ekki það sem drífur þessa kjörnu fulltrúa áfram heldur eiginhagsmunir - enn og aftur! Því eins og alþjóð man þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna í borginni gambla með vald sitt og stefna stöðugleika borgarinnar í hættu blindaðir af eiginhagsmunum. Það sem virðist skipta þá öllu máli er að troða hina persónulegu framabraut, hefndir, stólar og völd.

Ég hef af þessu verulegar áhyggjur fyrir hönd borgarbúa og finnst algjörlega óviðundandi að stjórnmálamenn, sem eru kosnir sem fulltrúar almennings til að gæta hagsmuna þeirra, bjóði kjósendum sínum upp á aðra eins óvissu og óöryggi. Á tímum sem þessum þar sem kjarasamningar eru lausir, fjárhagslegur óróleiki ríkir og erfitt er að halda uppi nausynlegustu nærþjónustinn sökum manneklu þá er stöðuleiki í stjórnsýslunni sérstaklega mikilvægur. Margir spá þessum meirihluta stuttum líftíma en það er ekkert grín fyrir borgarbúa ef sú spá reynist rétt því ef þetta fellur um sjálft sig og ekki tekst að mynda starfhæfan meirihluta þá er ekki einu sinni mögulegt að boða til nýrra kosninga líkt og hægt væri ef um landsmálin væri um að ræða.

Eitt er víst að tiltrú almennings á stjórnsýslunni og stjórnmálamönnum vex ekki við þetta og yfirskrift nýs meirihluta er vægast sagt öfugmæli!

Það verður forvitinlegt að sjá skoðanakannanir um ánægju almennings með þessi skipti, því þó myndun fráfarandi meirihluta hafi einnig borði skjótt að og framganga Binga hafi verið umdeild virtust Reykvíkingar samt sáttir við niðurstöðuna - en um 58% studdu þann meirihluta í skoðanakönnunum.

Ég er ekkert svo viss um að einu sinni Sjálfstæðismenn styðji þennan meirihluta. Mínir heimildarmenn innan Ungra Sjálfstæðismanna hörmuðu ekki brotthvarf Villa úr borgarstjórnarstólnum á sínum tíma þar sem hann var þeim alls ekki að skapi. Þeir sögðu Villa gamaldags stjórnmálamann, útbrunninn, íhaldssaman, kerfiskall sem færði ráðhúsið aftur um tugi ára hvað vinnubrögð og stjórnarhætti varðaði og að hann væri ekki Sjálfstæðismaður fyrir fimmaura! Þeim fannst því Dagur skárri kostur ef eitthvað var, hann myndi að minnstakosti færa stjórnsýsluna og vinnubrögðin í ráðuneytinu til nútímans á ný.

En nú sitja þeir greyin uppi með Gamla góða Villa á ný og fá að auki annan og ekki síður íhaldssamari furðufugl í kaupbæti - Ólaf Eff, en þeir hafa starfað saman í borgarstjórn í yfir 20 ár - eiga það að vera meðmæli???

Margir ungir Sjálfstæðismenn áttu erfitt með að berjast af sannfæringu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum sökum þessa og ég efast um að það verið neitt skárra í þeim næstu með skrípaleiki þessa vetrar og þennan meirihluta á bakinu.

Jæja, við eigum nú eftir að sjá hvernig þetta fer allt saman, hvort Ólafi takist að mæta til vinnu og manna nefndir sínar og ráð, hann hefur víst ekki úr miklu að moða hann getur auðvitað setið sjálfur í forsvari í þessum ráðum þótt óeðlilegt sé og dóttir hans getur ef til vill stytt fæðingarorlof sitt og setið sem nefndarmaður í nokkrum nefndum.

********

Það verður fundur um málið í Samfylkingarhúsinu að Hallveigarstíg í kvöld kl. 20:30 og verður áhugavert að heyra hvað Dagur hefur um stöðuna að segja :)

********

Svo hvet ég alla sem misbýður þessi vinnubrögð til að skrifa undir þennan undirskirftalista og mæta í ráðhúsið á morgun, fimmtudag kl. 11:45 og láta í sér heyra!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er orðinn ansi þreyttur á þessu ástandi í borgarpólitíkinni og skiptir ekki máli hvaða flokkur það er! Trúverðugleiki allra borgarfulltrúa er orðinn að engu! Þeir væna hvern annan um lygi í kross, ásaka hvorn annan um blekkingar og þar fram eftir götunum. Ég vildi óska þess að hægt væri að kjósa að nýju og banna öllum þeim sem sæti hafa í Ráðhúsinu að bjóða sig fram aftur!

En mig langar að spyrja þig að einu sem ungan jafnaðarmann...

þú segir í pistlinum "borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna í borginni gambla með vald sitt og stefna stöðugleika borgarinnar í hættu blindaðir af eiginhagsmunum. Það sem virðist skipta þá öllu máli er að troða hina persónulegu framabraut, hefndir, stólar og völd."

Ef ég vissi ekki betur þá er það eina sem þessir fjórir flokkar voru búnir að gera eftir að hafa komist til valda að skipta á milli sín völdum og stólum! Enginn er málefnasamningurinn eftir 102 daga við stjórnvölina! Hvernig stendur á því? Segir það ekki eitthvað um hversu ósammála flokkarnir voru um málefni?
Skrítin ákvörðunartakan hjá Degi með húsafriðunina á laugaveginum, þar sem mér fannst Dagur meira hugsa um vinsælli ákvörðunina heldur en eitthvað annað. Tek það fram að Dagur er töluvert betri kostur en "Til í allt með Villa" En hann verður að geta tekið ákvarðanir sem ekki eru þær vinsælustu.

einnig segir þú: "Það verður forvitinlegt að sjá skoðanakannanir um ánægju almennings með þessi skipti, því þó myndun fráfarandi meirihluta hafi einnig borði skjótt að og framganga Binga hafi verið umdeild virtust Reykvíkingar samt sáttir við niðurstöðuna - en um 58% studdu þann meirihluta í skoðanakönnunum."
Eins og þú veist sjálf þá eru íslendingar með gúbbífiska mynni eins og sést einungis á því að mál Þorsteins Davíðssonar og Ráðningu hans sem dómara er núna gleymd og grafin. Og ég ætla ekki að fara að minnast á íslendinga sem neytendur. enda myndi það vera stór pistill.

Ef þessi nýji meirihluti nær að lifa af þetta kjörtímabil sem er ansi ólíklegt þá verður hinn almenni Reykvíkingur löngu búinn að gleyma þessu og kjósa yfir sig sama fólkið!

Fínn pistill hjá þér ;)

Guðrún Birna sagði...

Sæll Ómar og takk fyrir kommentið :)

Hvað varðar trúverðugleika borgarfulltrúanna þá verðuru nú að viðurkenna að þeir eiga ekki allir skilið sömu útreið.

Ég tel að eins og málin þróuðust síðasta haust innan raða borgarstjórnarmeirihluta XD/XB þá hafi niðurstaðan verið óumflýjanleg.

Hugsjónalegur ágreiningur um eignir á auðlindum klauf meirihlutann ásamt vantrausti borgarfulltrúa á eigin borgarstjóra og baktjalda makk tengt því, sem og ólýðræðisleg vinnubrögð sem farin voru að einkenna stjórnsýsluna um og of.

Það var því hreint og beint hagsmunamál fyrir Reykvíkinga að nýr meirihluti tæki við, færði málin fram fyrir tjöldin og innleiddi vinnubrögð í takt við tíðarandann - faglega, gegnsæja stjórnsýslu þar sem lýðræðisleg vinnubrögð og samræðustjórnmál eru notuð til að leiða mál til lykta.

Ég tel því borgarfulltrúa Vinstir grænna, Samfylkingunnar og Margréti Sverris koma mjög heil frá þessu öllu saman. Annað mál er með Björn Inga, Ólaf F og fulltrúa Sjálfstæðismanna sem ég nefni sérstaklega þar sem þeir læra ekki af mistökum sínum og leika borgarbúa enn og aftur grátt nú í vikunni, blindaðir af eigihagsmunapoti.

Þú spyrð mig um málefnasamning "Tjarnarkvartetsins" og hvort skortur á yfilýstum "málefnasamningi" endurspegli ekki skoðanaágreining.

Heldur þú að það hvort fyrir liggur "málefnasamningur" segi endanlega til um hvernig samvinnan gangi í borgarstjórn. "Málefnasamningur" nýs meirihluta er til að mynda mjög stuttur og almennur og þolir illa nánari skoðun.

Fráfarandi meirihluti lýsti helstu markmiðum sínum yfir strax á fyrsta blaðamannafundi þar sem talað var um aðgerðir í manneklumálum og fleiri áherslur tengdar velferðarmálum. Það sem lá hins vegar fyrir í haust var að 3 vikur voru í að skila þurfti fullgerðir fjárhagsáætlun (til 2 ára að ég held), sem hefur heldur betur gert það að verkum að þau hafa þurft að koma sér saman um í hvaða málefni ætti að setja pening á næstunni. Nefndarformenn settu síðan niður stefnumál og markmið hver í sínum málaflokki og opinberuðu grófa útgáfu af þeim eins og sjá má dæmi um hér: http://bjorkv.blog.is/blog/bjorkv/entry/346897/

Þann 3. janúar síðastliðin dagsetti borgarstjórn síðan að hún ætlaði að kynna ítarlegri málefnaskrá sem nær út kjörtímabilið í byrjun febrúar að ég held.

Málefnasamningur og málefnasamningur er því ekki alveg það sama og ég sé ekki að það hafi aftrað meirhlutanum að hann hafi ekki verið kominn formlega. Hvað gagnrýni Ólafs F á þetta varðar þá finnst mér ekki mark á því takandi þar sem hann viðraði ekki þessa óánægju sína við sína samstarfsmenn - og það eitt sýnir að þessi kvörtun er ekkert annað en tilbúningur og átylla!

Hvað húsafriðunina varðar þá viðurkenni ég að ég er ekki nógu vel inní því máli en það viriðst vera orðið að endemis flækju og að ef til vill hefði mátt bregðast skýrar við óvæntri niðurstöðu húsafriðunarnefndar.

Meirihlutanum til varnar má hins vegar nefna að þetta mál er mjög þverpólitískt, sem gerir það snúið í vöfum við pólitíska ákvarðanatöku. Það endurspeglast einmitt í ágreiningi hjá nýmynduðum meirihluta þar sem Júlíus Vífill lýsti því nýlega yfir að borgarstjórn gæti ekkert aðhafst úr þessu til að stöðva niðurrif, en öndverð þess er mál nr. 2 í nýjum málefnasamning og gengur þvert á yfirlýsingu JV.

Við getum sammælst um ókosti gleymsku kjósenda, en við megum ekki láta það letja okkur til að láta í okkur heyra og gera það sem við getum til að koma því á framfæri sem okkur brennur fyrir brjósti!

Til að þetta mál falli ekki í gleymsku hvet ég þig og alla sem þetta lesa til að mæta í ráðhúsið á morgun og mótmæla, mótmæla svo eftirminnilega að það verði enn í minnum fólks árið 2010! Ég geri mér engar vonir um meira ;)

Úff, þetta svar varð aðeins lengra en ég ætlaði mér ...en þú verður bara að sætta þig við langt svar við löngu innleggi þínu ;)

Nafnlaus sagði...

lesa allt bloggid, nokkud gott