miðvikudagur, 30. janúar 2008

Með allt niðrum sig í NÁÐHÚSI Reykjavíkur

Þráinn Bertelsson er orðheppinn að vanda í bakþönkum sínum á baksíðu Fréttablaðsins á mánudaginn en hann gerir þar skrípaleikinn í Ráðhúsinu að umtalsefni sínu.

Hann gerir góðlátlegt grín að sófavæðingu samfélagsins og bendir á skoplegan hátt á fáránleika umræðunnar um að mótmælin í Ráðhúsinu hafi verið ofbeldi og aðför að lýðræðinu og svo slaufar hann með þessu:

Leiðtogar almennings í Ráðhúsinu eiga rétt á að fá að vera í næði fyrir borgarbúum. Ráðhúsið er þeirra náðhús.(Náðhús er staður þar sem fólk á heimtingu á að vera í friði með allt niðrum sig).

Snillingur :)

Þreytt umræða en þörf vegna vanhæfi fjölmiðla!
Ég get rétt ímyndað mér að margir séu orðinir nokkuð þreyttir á þessari umræðu og ef til vill er húmorinn besta leiðin til að nálgast þetta mál núorðið þar sem það stendur ekki steinn undir steini í umræðunni lengur. Sjálfhverfa íslenskra fjölmiðla kemur í veg fyrir að þeir rýni í staðreyndir málsins, Mogginn fer þar fremstur í flokki með Styrmi við stjórn með sína strámenn og moldarský. Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn hins nýmyndaða meirihluta hafa engan málstað að verja svo þeir, líkt og Mogginn, keppast við að draga athyglina frá kjarna málsins með gervirökum eins og þeim að væla yfir því hvurslags ofbeldi og aðför að lýðræðinu mótmælin voru - eins og lýðræðið snúist ekki um neitt bitastæðara en fundarsköp Hönnu Birnu.

Þegar strámennirnir hafa verið felldir og vælinu, biturleikanum og hitanum hefur verið skolað burtu þá stendur eftir sú staðreynd að kjörnir fulltrúar stóðu sig ekki í stykkinu, gleymdu að hafa hag borgarbúa að leiðarljósi í óðagoti og eiginhagsmunapoti. Eftir standa borgarbúar algjörlega valdalausir, ekki bjóða sveitastjórnarlögin uppá kosningar á ný ef allt fer á verri veg og við okkur blasir stjórnarkreppa, reglur um borgarstórn eru ónákvæmar og skilja eftir mikinn vafa í núverandi stöðu þar sem varamaður borgarstjóra styður ekki meirihlutann - stjórnsýsla Reykvíkinga er veik!

Vantar öryggisventil
Sú spurning vaknar óneitanlega hvort ekki ætti að tryggja borgurum fleiri úrræði til að tempra vald stjórnvalda ef þörf er á. Hvort ekki ætti að vera svipaður öryggisventill á sveitastjórnarstigi og er í landsmálunum svo að hægt sé að blása til nýrra kosninga ef stjórnsýslan er óstarfhæf og færa þannig valdið á ný til uppsprettunnar ef kjörnir fulltrúar misbeita því eða eru ekki færir um að mynda starfhæfa stjórn. Við höfum slíkan öryggisventil, málskotsrétt forseta, í landsmálunum og umræður í stjórnarskrárnefnd hafa jafnvel verið á þá leið að réttast væri að bæta þar við tóli í fang kjósenda, þ.e. að þeir geti sjálfir blásið til nýrra kosninga ef nógu stór hluti þeirra sækist eftir því.

Tjáningarfrelsið er eina vopnið sem fólk hefur í dag til að tempra vald stjórnvalda og koma á framfæri óánægju sinni. Ef kjörnir fulltrúar misnota vald sitt og kasta lýðræðislegum vinnubrögðum fyrir róðann þá er það okkar skylda að láta í okkur heyra. Lýðræðisleg vinnubrögð eiga að einkennast af samræðum og samvinnu kjörinna fulltrúa, gegnsærri, upplýstri og faglegri ákvarðanatöku. Þessi gildi hafa öll verið þverbrotin endurtekið af borgarfulltrúum Sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili, sem og Ólafi F og Binga. En þær staðreyndir ætla ég ekki að reka hér, það væri efni í heila ritgerð.

Vildi óska að þau hættu þessu rugli!
Ég vildi glöð leggja þetta mál á hilluna og óska nýjum meirihluta velfarnaðar þar sem borgarbúar þurfa einmitt verulega á því að halda að nú sé hafist handa við að vinna að hag þeirra. En það er bara erfitt þar sem nýr meirihluti heldur áfram að klúðra, viðist ekki læra af reynslunni. Þeir virðast enn við sama heygarðshornið, sama fljótfærni, óðagot, óvandvirkni og ófagmennska heldur áfram að einkenna verk þeirra. Eins og t.a.m. skipanir þeirra í barnaverndarnefnd, en þessi nefnd heldur utan um mjög viðkvæm mál og því þarf sérstaklega að vanda til skipana í hana.

Ég er ansi hrædd um að ef fyrirtæki í samkeppni á markaði, af svipaðri stærðargráðu og Reykjavíkurborg, myndi viðhafa önnur eins vinnubrögð og Sjálfstæðismenn hafa sýnt í borginni það sem af er þessa kjörtímabils - þá liði ekki á löngu áður en það myndi heltast úr lestinni og stefna í þrot.

Aftur til fortíðar
Það er leitt að borgarbúar sitji uppi með Gamla góða Villa með sín fornfálegu vinnubrögð. Framtíðinni er frestað með því að negla niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni, velferðin sett á bið og hörðu málin tekin við - velferðarmálin eru bara auka. Mál nr. 1 og 2 á forgangslista þeirra eru skipulagsmál meðan mannekla gerir það að verkum að vart er hægt að halda uppi nærþjónustu borgarinnar og það getur hægt all verulega á hjólum atvinnulífisins í borginni. Ekki höfum við efni á að það hægi á þar sem þetta eru viðkvæmir tímar í efnahagsmálum, kjaramningar eru lausir og óróleiki á fjármálamörkuðum er mikið áhyggjuefni.

En ég ætla að reyna að vera bjartsýn, vekja í mér Pollýönnuna - minnihlutinn mun standa vaktina og það eru ekki nema rúm 2 ár í næstu kosningar - how low can they go?

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það sem gætu reiknast sem dæmi um þær afleiðingar sem svona kerfi hefur er að skortur á fólki á daggæslustofnunum, meðal annars gerir það að verkum að foreldrar hafa í fullu að sinna þessum málum sjálfir, sem gerir það að verkum að þeir hafa ekki tíma til að sinna lýðræðislegum hlutum.

Guðrún Birna sagði...

Já, rétt er það, sem og atvinnu sinni en við eigum hagvöxt síðustu ára mikið til að þakka íslenskum konum sem flykktust út á vinnumarkaðinn og gerði það að verkum að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi er sú mesta í heimi. Þessi atvinnuþátttaka gæti ekki átt sér stað ef ekki væri fyrir frábæra uppbyggingu dagvistunarúrræða í stjórnartíð R-listans.

Manneklumálin eru því brýnustu málefni borgarinnar nú um stundir, en því miður er nýji meirihlutinn ekki með þau ofarlega á blaði - forgangsröðun hægri manna er einfaldlega önnur þó ég viti að auvitað vill enginn manneklu.

Nafnlaus sagði...

Það fjallar um að fólk hafi tíma til að fylgjast með stjórnarháttum, svo að atvik sem þessi gerist ekki þar sem að það rýrir trúverðugleika lýðræðis.