mánudagur, 14. janúar 2008

Stemning á flokksstjórnarfundi

Helgin að baki og kominn mánudagur á ný, rútínan að slípast eftir jólaóregluna - eins og jólafríið er nú notalegt þá finnst mér alltaf jafn gott þegar allt fellur í fastar skorður á ný :)

Ég sat flokkstjórnarfund Samfylkingarinnar nú um helgina, þetta var virkilega skemmtilegur fundur og vel mættur en um 100 manns voru mætt í Hlégarð kl. 9 á laugardagsmorgni til að taka þátt í nefndarstörfum málefnanefnda, vel yfir 200 manns voru á fundinum þegar best lét. Það var mikill stemning og kraftur í fólki enda ekki nema von þar sem nú eru spennandi tímar fyrir Samfylkinguna sem fær nú í fyrsta sinn tækifæri til að sýna styrk sinn í verki í ríkisstjórn og er á sama tíma í meirihluta víða um land í sveitastjórnum. Stjórnarsamstarfið fer vel af stað og á þessu hálfa ári sem af er stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar hefur nú þegar um 70% af verkum stjórnarsáttmálans verið komið á framkvæmdarstig.

Það var virkilega gaman að heyra framsögur þeirra Ingibjargar og Dags, þau fögnuðu árangri Samfylkingarinnar á síðasta ári en hún hefur náð því markmiði sínu að komast til áhrifa. Dagur benti á að þó við hefðum komið flokknum þangað sem við ætluðum okkur þá væri aðal verkið eftir, baráttan fyrir því að koma Íslandi á þann stað sem við viljum sjá það og að við yrðum að vera óþolinmóð í garð úrbóta og koma stefnumálum Samfylkingarinnar í framkvæmd.

Ingibjörg talaði um tvö stór mál sem við stæðum frammi fyrir nú og yrði að leysa, staða kjaramála á almennum vinnu markaði og óróleiki á fjármálamarkaði. Degi var einnig tíðrætt um kjaramálin sem mikilvægt er að greiða úr og jafna hlut þeirra sem verst hafa það. Þau töldu bæði koma til greina að grípa til stjórnvaldsaðgerða í þeim málum og að samvinna verkalýðsfélaga og stjórnvalda væri mikilvæg. Breytingar á húsnæðismálum gætu spilað stóran þátt og kæmi þá til greina að nýta hugmyndir úr nefnd Jóhönnu sem vinnur nú að því að finna lausnir á þeim málum.

Það var auðvitað ýmislegt fleira rætt og virkilega skemmtilegt að hlusta á ráðherra sitja fyrir svörum eftir að fundinum var lokað fyrir fjölmiðlum, öll spjót beindust að Kristjáni Möller líkt og á síðasta fundi en þau mál sem stendur hvað mestur styr um þessi misserin heyra flest undir hann, þ.e. Sundabraut, Reykjavíkurflugvöllur og svo eru Sveitastjórnarmálin að auki komin undir samgönguráðherra og þar með kjaramálin, tekjuskipting, manneklumálin ofl.ofl. svo voru orkumálin greinilega enn ofarlega í hugum fólks og verður því áhugavert að fylgjast með nýja frumvarpinu hans Össurar.

Engin ummæli: