fimmtudagur, 31. janúar 2008

Persepolis


Ég sá æðislega mynd í gær, Persepolis, mæli með henni en síðustu sýningar eru á franskri kvikmyndahátíð í Háskólabíó í kvöld.

Ég man ekki eftir að hafa farið á teiknimynd fyrir fullorðna áður, virkilega skemmtilegt form, mér finnst sagan verður sterkari því hún verður meira aðalatriði og maður lifir sig ef eitthvað er meira inní myndina. Kannski er það eins og með bókina, það er oft betra þegar eitthvað er skilið eftir fyrir ímyndunaraflið en líka það að þetta form býður uppá að farið sé hraðar yfir sögu og mögulegt að sýna hlutina á beinskeittari hátt en ella.

Það er t.d. æðislegt að sjá hvernig ástin er myndgerð í myndinni, hún verður ástfangin, þau svífa um á blómabeði bókstaflega, það styrnir af fallegum elskhuganum og allt gengur eins og í draumi. En svo eftir að hann heldur framhjá henni fer hún yfir sömu sögu aftur í huganum, þá er elskhuginn hrikalega ljótur, andfúll, klaufalegur, allt er hálf vandræðanlegt og þau passa bara ekki saman, hún bókstaflega ælir þegar hún les það sem hann skrifar osfrv. hrikalega kómískt.

Já, svona er þetta, ástin er blind og biturleikinn sviptir hulunni frá augum okkar og bætir um betur af svörtu ;)

Þessi saga hrífur mann svo sannarlega með sér, segir frá breytingum í Íran síðustu áratugi, kvennakúgun og áhrifum stríðs og bókstafstrúar. Sagan varpar líka ljósi á það að lífshamingjan er ekki endilega undir utanaðkomandi aðstæðum komin, hana er ekkert frekar að finna á friðartímum og oft getur jafnvel verið auðveldara að finna lífsþróttinn þegar á móti blæs.

Ég hef oft velt þessu fyrir mér eins og bara með sjálfa mig og aðra Íslendinga í svipuðum sporum og ég, við höfum í raun allt til alls, lífsbaráttan hér er engin lífsbarátta í orðsins fyllstu merkingu, sérstaklega ef við berum hana saman við þróunarlöndin eða baráttu þeirra sem búa á stríðshrjáðum svæðum.

Er sókn okkar í spennu, sjálfseyðingarhvöt þeirra sem leiðast út í eiturlyf, harkan og drápseðlið í viðskiptalífinu þar sem allt snýst um að drepa samkeppnina, lífsgæðakapphlaupið og eltingaleikur við gerviþarfir til að uppfylla gervivæntingar ekki bara okkar þörf fyrir einhverskonar stríð? okkar leit að tilgangi, einhverju til að berjast fyrir?

En þó spennan veiti okkur vellíðan rétt á meðan við erum á brúninni, rétt á meðan adrenalínið er enn að pumpast út í blóðið og við hættum okkur aðeins lengra, þá er sú sigurvíma ekki varanleg. Svo þegar öllu er á botninn hvolft þá komumst við kannski að því eftir alla leitina að lífshamingjuna er ekki að finna í utanaðkomandi aðstæðum – en við áttum okkur kannski ekki á þessu fyrr en við höfum reynt hvort tveggja og lítum til baka.

Jahérna.... bingó... lausnin er fundin... ég hef fundið leiðina að lífshamingjunni hér og nú... við þurfum að hætta að leita hennar í veraldlegum áþreifanlegum hlutum og leita þess í stað inná við ;)

Já ég er með þetta allt á hreinu – eftirleikurinn hlýtur að vera léttur úr þessu :)

Góðar stundir

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Trailerinn má sjá hér
http://www.youtube.com/watch?v=Rl6kH3xPwDU