þriðjudagur, 15. janúar 2008

Leiðin að bættu menntakerfi?

Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra lagði fram nú á haustþingi mjög ítarleg frumvörp til breytingar á íslenska skólakerfinu. Hún segir að við samningu þessara frumvarpa um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafi verið leitast við að horfa til þessara þriggja skólastiga sem heildar, auka samræmi og skapa svigrúm jafnt innan sem milli skólastiganna til þess að mæta breytilegum þörfum skólabarna.

Mun þetta færa okkur betra menntakerfi?
Mikil vinna hefur farið í undirbúning þessara frumvarpa á síðustu árum, mikið fundað, fleiri hundrað umsagnir fengnar, leitað samanburðar við önnur lönd ofl., en munu þessar breytingar færa okkur betri skóla? Það er eflaust margt gott í þessum frumvörpum eins og fögur fyrirheit um samþætting skólastiga, bætta menntun kennara, að dregið sé úr prófamiðun og miðstýringu, einstaklingsmiðaðar og að kostnaður af skyldunámi sé nemendum að kostnaðarlausu.

En hversu langt fleyta þessar breytingar okkur? eru þetta helstu vandamál menntakerfisins í núverandi mynd?

Engin lausn á helsta vandamáli íslenska menntakerfisins!
Ég er ansi hrædd um að þau vandamál sem á er tekið í þessum frumvörpum séu smávægileg í samanburði við áhrif mannekluvanda allra skólastiga á gæði menntunarinnar sem og kulnun og flótta hæfra kennara og uppaldenda úr stéttinni. Lagt er til að kennaranámið verði lengt, margir fagna því og álykta svo að það tryggi hækkun launa og auki aðsókn kennara aftur í stéttina en aðrir telja að sú aðgerð geti verið tvíbent.

Guðbjörg R. Þórisdóttir bendir einmitt á það í grein sinni í Morgunblaðinu í gær, þann 14.01.08, og segir að ef haldið verði áfram að leyfa ráðningar leiðbeinenda í störf grunnskólakennara samhliða því að auka menntunarkröfur kennara til muna sé verið að stuðla að gengisfellingu kennarastarfsins.

Hækkun launa aðal málið!
Ég vil nú kannski ekki ganga jafn langt og Guðbjörg en ég get tekið undir að auknum kröfum verði að fylgja fleira og helst af öllu veruleg hækkun launa til að þessar auknu kröfur skili sér í betra starfi. Þá erum við loks komin að kjarna málsins að mínu mati, LAUNUNUM, við verðum að fara að horfast í augu við það að ef við viljum bæta menntakerfið þá verðum við að gera því kleift að keppast um hæfsta stafsfólkið. Kennarar búa yfir mikilli stjórnunarreynslu og eru því eftirsóttir starfskraftar í hin ýmsu störf. Eins og staðan er í dag á menntakerfið ekki séns í markaðsöflin í þessum efnum, það heufr nær engan svegjanleika til að hygla þeim sem skara framúr í starfi og launin eru yfir það heila allt of lág. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir mikla ásókn í kennaranám virðist framboð umsókna til leik-, grunn- og framhaldsskóla ekki aukast í sama mæli.

Hvers virði er uppeldi og menntun komandi kynslóða?
Viljum við að komandi kynslóðir séu mótaðar af afgöngum markaðsaflanna og ófaglærðum starfsmönnum í bland við einstaka hugsjónamanneskju sem býr svo vel að geta/vilja látið sig hafa kennaralaunin? Þetta er kannski svolítið ýkt mynd sem ég dreg upp en samt ekki svo fjærri sanni. Ég var til að mynda aðeins 19 ára og nýskriðin uppúr menntaskóla þegar ég var ráðin sem íþróttakennari 1.-10. bekkjar í grunnskóla hér á höfuðborgarsvæðinu og var falið ári seinna, eða 20 ára, að starfa sem umsjónakennari 8. bekkjar og kenndi að auki nokkur bókleg fög. Án þess að gera lítið úr eigin starfsframlagi á þessum tíma þá finnst mér þetta ekki viðunandi ástand og þess ber að geta að ástandið hér á höfuðborgarsvæðinu er þó skárri en úti á landi.

Ef Ísland ætlar að halda sér í fremstu röð eða að minnsta kosti verja núverandi stöðu þá verðum við að snúa þessu við, gera menntastofnunum kleift að bjóða svo vel að mannauðurinn keppi um stöður þess en ekki öfugt. Ég held að kennarastétt uppfull af eldmóði og starfsánægju sé leiðin að bættu menntakerfi :)



Annað kvöld boða Ungir Jafnaðarmenn og Samfylkingarfélagið í Reykjavík til opins fundar um frumvörp menntamálaráðherra um breytingar á skólakerfinu. Fundurinn verður haldinn að Hallveigarstíg 1, kl. 20:30 og eru allir velkomnir.

Þetta er einstaklega gott tækifæri fyrir fólk sem lætur sig þessi mál varða til að hafa áhrif á málin áður en þau verða tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu í þinginu. Þær Katrín Júlíusdóttir þingkona og Oddný Sturludóttir munu vera með framsögu og svo verður tími fyrir opnar spurningar og lýðræðislegar umræður :)

Ég hlakka til að sjá ykkur sem flest :)

4 ummæli:

Tryggvi Edwald sagði...

Vissulega er áríðandi að hækka laun kennara. Það er nauðsynlegt í þjóðfélagi hvar virðing er metin í krónum.

En hækkun launa ein og sér hefur ekki endilega í för með sér tryggingu fyrir að hæfasta fólkið fáist í kennslu.

Kennsluhæfni og þekking á viðfangsefninu er ekki sama og kennsluréttindi.

Guðrún Birna sagði...

Já mikið rétt Edwald :) það þarf svo sannarlega fleira að koma til, en mér fannst rétt að hnykkja á þessum punkti þar sem lítið er minnst á kennara í þessum frumvörpum eins og þeir gleymist þegar hugað er að leiðum til að bæta menntakerfið.

Ég get einnig vel fallist á það að margt vanti inní núverandi menntun kennara og að úr því megi bæta, en það eitt og sér gerir lítið.

Kv. GB

Nafnlaus sagði...

Vandamálið er það Guðrún Birna að verkalýðshreyfingin er ekki tilbúin að hækka bara kennara en ekki aðra. Ef kennarar hækka mikið þá verða leikskólakennarar að hækka líka og ef þeir hækka mikið þá finnst löggunum sjálfsagt að þeir hækki líka og ef þeir hækka á tollurunum, verkamönnunum, rafvirkjunum, hjúkrunarfræðingunum, konur í umönnunarstéttum o.s.frv.
Það er ekki búið að skapa þau skilyrði að verkalýðshreyfingin sé tilbúinn að hækka einn hóp en ekki aðra hópa. Ef allir þessir fjölmennu hópar hækka verulega þá mun það hafa veruleg áhrif á verðbólgu og halda áfram upp allan stigann. Þetta er vandamálið.
Eina lausnin er sú að verkalýðshreyfingin taki sameiginlega afstöðu til þess að hækka þennan hóp mun meira en aðra hópa. Ég er hins vegar ekki að sjá það gerast. Aðrir hópar, t.d. hjúkrunarfræðingar og leikskólakennarar sem eru með Batchelor menntun líka munu heimta það sama og svo koll af kolli...

Nafnlaus sagði...

lesa allt bloggid, nokkud gott