fimmtudagur, 10. janúar 2008

Að mæta lífinu opnum örmum

Ég var spurð að því um daginn hvort ég ætti mér lífsmottó eða uppáhalds tilvitnun. Ég átti erfitt með að svara þessu þrátt fyrir að hafa alla tíð haft nokkuð gaman af slíku. Það er margt sem kemur upp í hugann, á lífsleiðinni grípur maður ýmsan viskumolann á lofti og nýtir sem innblástur og leiðsögn, en hvaða speki er í uppáhaldi fer nú líklega eftir því hverju maður stendur frammi fyrir hverju sinni.

Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvað við mörg hver eyðum allt of mikilli orku í að hafa áhyggjur af því sem við fáum ekki breytt eða að rembast við að breyta því sem ekki er á okkar valdi að breyta. Reyna að breyta því hvernig hvernig aðrir haga sér og sínu lífi, hafa áhyggjur af því hvað aðrir gætu verið að hugsa og gera eða jafnvel hafa áhyggjur af óumflýjanlegum hlutum eins og veðrinu og dauðanum.

Við eigum það til að festast í varnarstöðu með hnefana á lofti til öryggis ef ske kynni að við mætum mótlæti. Það sem ég held að gefist best og ég reyni að gera eftir fremsta megni er að mæta lífinu opnum örmum hvort sem um mótlæti eða meðbyr er að ræða eða eins og Forrest nokkur Gump hafði eftir móður sinni í samnefndri mynd - Life is like a box of chocolates, you never know what you're gonna get - Svo sannarlega orð að sönnu :)

Que sera sera, það verður og fer sem fer, hið ókomna enginn sér, que sera sera…

Það er ekki þar með sagt að við eigum bara að leggjast út af aðgerðarlaus eða flýja af hólmi þegar í harðbakka slær. Það sem ég á við er að ég held að það gagnist okkur illa að streitast á móti þegar við mætum andstöðu, held að það slái bara vopnin úr höndum okkar og geri það að verkum að við missum stjórn á okkar eigin hamingju. Ef við leggjum allt undir og tökum slaginn þá veltur hamingja okkar eða óhamingja á því hvaða leik aðrir leika og því hvernig slagurinn fer, útkoman er því ekki lengur á okkar valdi.

Ef við mætum hins vegar andspyrnu með eftirgjöf þá er það á okkar valdi að spila úr framhaldinu, við myndum rúm til að meta stöðuna og finna þá leið eða lausn sem við sjáum besta í stöðunni og fleytir okkur nær okkar óskadraumi :) Eftirgjöf og sókn í kjölfarið er því besta vörnin.

Lífið er eftir allt óútreiknanlegt svo sá hæfasti oft á tíðum sá sem er leikinn að haga seglum eftir vindi :) En við erum auðvitað misjafnlega fyrirkölluð og auðvelt er að falla í þá gryfju að láta hugann og hughrif hans hlaupa með okkur í gönur og draga okkur inní lýjandi áhyggjur og stríð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Te audire no possum. Musa sapientum fixa est in aure

Nafnlaus sagði...

ce la vie!

Gulli sagði...

Það er engin smá byrjun Guðrún Birna! Ef þú heldur svona áfram þá verður þú minn uppáhaldsbloggari. Ég er svo sammála innihaldi þinna tveggja fyrstu bloggfærslna. Sjálfur tek ég einmitt öllu með opnum hug og reyni að sína öðrum (og mér) virðingu með því að leyfa smá andrými þó svo að ágreiningur sé uppi.

Það er ekki gaman að missa vald á atburðarásinni. Ef ég orða þetta á mjög ófágaðan hátt: Ef maður er að eiga við skítadreifara þá getur maður orðið skítugur sjálfur ...