föstudagur, 15. ágúst 2008

Valdið er okkar!

Úff!
Já þetta eru nú meiri skrípalætin í borgarstjórn Reykjavíkur, maður er eiginlega orðlaus, Hanna Birna segir í Kastljósi nú áðan að samstarfið hafi verið styrt frá upphafi og vekur það spurningar hjá mér um gáfur og hæfni hennar og félaga til að taka ákvarðanir yfir höfðu.

Mér er það minnisstætt þegar ég stóð í ráðhúsinu, fyrir rúmu hálfu ári, í miðjum kór sem kallaði endurtekið "hættið við, hættið við" og gerði allt hvað hann gat til að benda kjörnum fulltrúum á að þetta samstarf tefldi hagsmunum þeirra/borgarbúa í tvísýnu - meirihlutinn hékk á einum manni sem brennt hafði allar brýr sér að baki og stóð sem eyland í eigin flokki.

Eina glóran í þessum leik var eiginhagsmunapot á kostnað réttaröryggis og vinnufriðs í borginni - lýðræðinu var traðkað niður í svaðið!

En svo er sagan að endurtaka sig... hvað getur maður nú sagt?

Hér er ályktun sem við í stjórn Hallveigar - ungum jafnaðarmönnum í Reykjavík sendum frá okkur í dag:


Hallveig hafnar Bakdyradúett.

Hallveig – ungir jafnaðarmenn í Reykjavík, hafnar nýjum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni og veit að Reykvíkingar eru sama sinnis. Enn einu sinni á kjörtímabilinu er búið að misbjóða lýðræðinu og borgarbúum. Í síðustu kosningum fengu þessir flokkar aðeins um 48% atkvæða. Nú mælast þeir með innan við 29% fylgi. Að auki hefur hin upphaflega forystusveit beggja flokka tvístrast, en tveir efstu menn úr prófkjöri Framsóknarflokksins hafa yfirgefið borgarmálin og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins getur ekki stjórnað sjálfum sér, hvað þá borginni.

Verðandi formaður borgarráðs, Óskar Bergsson, hefur nú innan við tvö prósent borgarbúa á bak við sig. Hallveig vill rifja upp að hann á sér sögu sem pólitíkus eigin valda frekar en fólksins. Hann sat beggja vegna borðsins fyrr á kjörtímabilinu, sem formaður framkvæmdaráðs og á sama tíma sem fulltrúi Faxaflóahafna í hagsmunagæslu gagnvart sjálfum sér. Óskar er nú ábyrgur fyrir því að hafa hundsað möguleikann á öflugri borgarstjórn Tjarnarkvartettsins sem nýtur mikils trausts borgarbúa.

Ábyrgðarhluti Sjálfstæðisflokks er ekki minni en hann myndar nú á ný meirihluta eftir viðræður við einn mann, án þess að hirða um hvort hann hafi stuðning næsta varamanns síns. Það gerir að verkum að meirihlutinn er engu traustari en sá sem féll.

Hallveig leggur til við Alþingismenn að þeir íhugi alvarlega að grípa til þess örþrifaráðs þegar þingið kemur saman í september, að setja bráðabirgðalög svo kjósa megi aftur í borginni.


Þessi ályktun er engan veginn tæmandi yfir það sem mér liggur á hjarta. En eftir því sem atburðarrás síðust daga og síðasta árs síast betur inn þeim mun minni tilgang sé ég í því að velta vöngum yfir síendurtekinni valdníðslu og yfirgangi sitjandi fulltrúa í borginni - þau láta ekki segjast - taka ekki þátt í samræðu við umheiminn.

Reykvíkingar, það er kominn tími til að snúa vörn í sókn!

Rísum upp úr svaðinu og krefjumst þess að fá að kjósa á ný!

Munið að valdið er ekki þeirra heldur frá okkur komið, við erum uppspretta valdsins, valdið er fengið að láni til að vinna að okkar hag.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú átt þá við að í hvert skipti sem kjörnir fulltrúar geta ekki unnið saman þá verði að kalla til kosninga?
Væri þá ekki skynsamlegt að þeir sem vildu kalla til kosninga myndu borga það úr eigin vasa?
Ef Borgarfulltrúar geta ekki unnið með öðrum eiga þeir að segja af sér og hleypa varamönnum sínum að.
Ég held nú reyndar að þessi kosningar krafa hefði verið sópuð rækilega út af borði vinstrimanna ef einhver Samfylkingarsveitarstjórn ætti að velta í nýjum kosningum.

Guðrún Birna sagði...

Mér finnst það sjálfsögð krafa til að tryggja réttaröryggi að hafa einhvern öryggisventil í borgarmálunum, sem hægt sé að grípa til þegar allt fer í bál og brand, færa valdið þá til fólksins á ný.

Hvaða aðferð yrði fyrir valinu er svo annað mál t.d. að til þyrfti aukinn meirihluti borgarbúa til að knýja fram nýja kosningu eða eins og þú segir að kalla þurfi til kosninga í hvert skipti sem uppúr blæs - held það sé þannig í Bretlandi.

En ég held að Samfylkingarfólk hefði reyndar alveg verið til í nýjar kosningar eftir REI-splúndrið enda var hún að skora hátt hjá þjóðinni þá, líkt og allt síðasta ár.

Það er hins vegar rétt hjá þér að pólitíkin snýst oft all of mikið um eigin hag og hag eigin flokks í stað hag fólksins í landinu.

Það vantar oft hugsjónir, framtíðarsýn og vilja til að standa með eigin sannfæringu.

Nafnlaus sagði...

Þetta er kostuleg ályktun. Annars vegar er reynt að sverta Óskar í takt við það sem vinstri menn gera ávallt við alla þá sem þeim líkar ekki við. Hins vegar kemur fram ákall um að hann taki höndum saman við svokallaðan Tjarnarkvartett, sem í raun hafði aldrei meirihluta á bak við sig. Sjónarspil krata og komma um að Ólafur hafði ætlað að víkja hefur verið afhjúpað svo rækilega að ekki stendur steinn yfir steini varðandi það.

Það væri svo fróðlegt fyrir Dag Bergþóruson að fara rækilega yfir það með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hvað felst í hugtakinu klækjastjórnmál. Hann segir að það snúist um að tilgangurinn helgi meðalið, menn boði eitt fyrir kosningar og framkvæmi annað að þeim loknum, allt fyrir völdin. Hvað hefur Samfylkingin gert í landsstjórninni? Hvar er fagra Ísland og öll hin fögru loforðin sem farið var fram með fyrir kosningar?

Nafnlaus sagði...

Réttaröryggi kemur ekki þessu máli við þar sem þetta mál er ekki fyrir dómstólum og það snýr ekki að réttarreglum eða hegningarlögum.

Það er hægt að breyta lögum fyrir næstu kosningar en afturvirk neyðarlög eru algerlega út úr myndinni. Það er allavega ekki neytt sjálfsagt í því.

Nafnlaus sagði...

Próarkalestur/leiðrétting: Höfuð en ekki höfðu.*

[...vekur það spurningar hjá mér um gáfur og hæfni hennar og félaga til að taka ákvarðanir yfir höfðu.]

*Ef vakna svona margar spurningar um gáfur og hæfni annarra þarftu að vanda þig meira sjálf svo mark sé á þér takandi.

Nafnlaus sagði...

Próarkalestur/leiðrétting: Höfuð en ekki höfðu.*

[...vekur það spurningar hjá mér um gáfur og hæfni hennar og félaga til að taka ákvarðanir yfir höfðu.]

*Ef vakna svona margar spurningar um gáfur og hæfni annarra þarftu að vanda þig meira sjálf svo mark sé á þér takandi.

Nafnlaus sagði...

Þessi ónafngreindi aðili sem setti hér athugasemd á undan mér hlýtur að vera einstaklega mikið gáfumenni.

Ekki nóg með að krafan um réttritun ríður öllum bloggum heldur er núna ekkert umburðalyndi fyrir prentvillum.

...fauk svolítið í mig að lesa þessa ómerkilegu athugasemd..

En já það verður áhugavert að sjá hvað gerist á næstu vikum og mánuðum, en það hefur sýnt sig og sannað að þetta fólk getur ekki unnið saman! Það er eitthvað rotið þarna og hvort það er mengun frá tjörninni eða eitthvað annað þá þarf að hleypa nýju fólki að hvort sem það þarf nýjar kosningar fljótlega eða tvö ár í viðbót.

Nafnlaus sagði...

Kíkjum á Marsibil.

Hún fer í fýlu eins og smákrakki, varaborgarfulltrúinn.

Hún er í sandkassaleik.

Vandamálin í borginni eru og hafa verið út af fólki eins og henni.

Enda tók hún þátt í upphaflegu svikunum við Sjálfstæðisfólkið.

Hún bar ábyrgð á að svíkja samstarfsfólk sitt í fyrsta meirihlutanum.

Hún er ennþá í einhverjum barnaskólasaumaklúbbi.

Skilur ekki umhverfi sitt.

Skilur ekki skyldur sínar.

Frekar en Dagur og Svandís.

Enda brást Marsibil þeim á sínum tíma þegar hún byrjaði ballið med Birni Inga.

Miklu veldur sá sem upphafinu veldur.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin í borgarstjórn útilokar fólk. Útilokar að vinna með fólki. Sérstaklega Sjálfstæðisfólki.

Hvers konar fagmennska er það? Hvers konar eigingirni og ofstopi? Hvers konar stjórnmál?

Útilokunarstjórnmál.

Og bregst því frumskyldu sinni gagnvart borgarbúum - að mynda meirihluta.

Björn Bjarnason segir á heimasíðu sinni:

"Þau [Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir]telja einfaldlega pólitíska hagsmuni sína meira virði en hagsmuni borgarbúa. Þau vilja ekki una því, að sjálfstæðismenn sitji í meirihluta í borgarstjórn. Þeim er andúðin á Sjálfstæðisflokknum mikilvægari en að mynda breiðan meirihluta um stjórn Reykjavíkurborgar."

Og:

"Ef einhver stuðlar að glundroða í þessari borgarstjórn, sem nú situr, eru það borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri/grænna. Þau telja sér það helst til framdráttar, en sjálfstæðismenn leggja sig fram um að mynda starfhæfan meirihluta."

Sem er frumskylda kjörinna borgarfulltrúa.

Það er kjarni málsins.

Já og líka það sem fram kemur hér að ofan - að miklu valdi sá sem upphafinu valdi.

Samfylkingin tók þátt í upphaflegu svikunum með Birni Inga og Marsibil.

Það voru sannkölluð klækjastjórnmál.

Og ber svo allt í einu enga ábyrgð á neinu.

Eins og úlfur í sauðskinnsgæru.

Give me a break.

Nafnlaus sagði...

Málið er einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki að mynda starfhæfa meirihluta. Ef svo væri hefðu ekki verið 4 meirihlutar á tvemur árum. Þar að auki er ekki að sjá að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft sömu skoðun eða stefnumál í neinum af þessum meirihlutum; hvorki þegar þeir hafa verið í meiri- eða minnihluta.

Baráttan í borginni stendur ekki milli hægri og vinstrimanna heldur milli þeirra sem hafa stjórnmálaskoðanir og þeirra sem eru bara þátttakendur í spilinu.

Nafnlaus sagði...

Þetta er algjört gull "Ef einhver stuðlar að glundroða í þessari borgarstjórn, sem nú situr, eru það borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri/grænna". Þetta gæti allt eins verið frá meistara Sigurði Kárasyni.

Nafnlaus sagði...

Thanks for some quality points there. I am kind of new to online , so I printed this off to put in my file, any better way to go about keeping track of it then printing?