fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Valdið til fólksins - blásum til kosninga!

Ég hef fengið mig full sadda á lýðskruminu í borginni, ég sé enga aðra lausn en nýjar kosningar - ekki einu sinni Tjarnarkvartettinn góða ég vil valdið aftur til fólksins í borginni!

Ég er búin að gefa upp vonina að nokkur nái til sitjandi borgarstjórnar eða að hún nái sönsum í bráð. Því þarf að beina spjótunum að alþingi, krefjast þess að þegar í stað verði sett bráðabirgðarlög til breytingar á kosningalögum til sveitastjóna sem færa valdið aftur í hendur uppsprettu þess og gera Reykvíkingum kleift að efna til nýrra kosninga í borginni.

Lýðræðið fótum troðið
Sá meirihluti sem nú tekur við er fjórði meirihlutinn sem myndaður er á þessu
kjörtímabili og er það þó ekki nema hálfnað, það sér hver maður að hver sem lendingin verður þá verður staðan áfram brothætt, eina lausnin er að efna til nýrra kosninga og leyfa Reykvíkingum að meta hver sé enn þess verðugur að fara með vald þeirra.

Lýðræðið hefur verið fótum troðið og hagur borgarbúa hefur æ ofan í æ vikið fyrir sérhagsmunaplotti sem endurspeglast í rifrildum um stóla og völd. Athyglisvert er að nú í vetur hafa 3 af 5 kjörnum oddvitum flúið af hólmi eftir að hafa verið vændir um að fara illa með það vald sem þeim var treyst fyrir, oddvitar xD og xB sem mynduðu fyrsta meirihlutann og svo nú síðast Ólafur F. fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur.

Þetta þýðir að þeir oddvitar sem standa fyrir stólahrókeringunum nú hafa ekki einu sinni umboð kjósenda sinna til að leiða sína lista. Það hlýtur því að blasa við að
grundvöllur valdsins er hruninn, grunnuppspretta valdsins eru íbúar Reykjavíkur, ef við ætlum að halda þeim titli að kallast lýðræðisríkið þá er varla hjá því komist að efna til nýrra kosninga.

Allt þetta mál endurspeglar algjört virðingaleysi fyrir Reykjvíkingum og
sveitastjórnarstiginu í heild. Það má vera að starf borgarfulltrúa hafi hér á árum áður talist léttvægt og nánast hobbý veltengdra manna en nú eru breyttir tímar. Ríkið hefur flutt hvern málaflokkinn á fætur öðrum yfir til sveitastjórna á síðust árum og áratugum, veigamiklir málaflokkar er halda uppi grunnstoðum þjóðfélagsins og halda utan um nær alla nærþjónustu fólksins í landinu. Sveitastjórnarstigið hefur því heldur betur vaxið sem og mikilivægi hlutverks borgarfulltrúa og borgarstjórnar í lífi og starfi landsmanna.

Alþingi þarf að bregðast við
Það skýtur því skökku við að alþingi beri ekki meiri virðingu fyrir þessu stigi en svo að ekki eru varnaglar til að bregðast við lýðskrumi líkt og átt hefur sér stað í Reykjavík í vetur og hefur ekki séð tilefni til þess að vernda íbúa þessa lands fyrir ofríki valdsjúkra sérhagsmunaseggja líkt og nú stjórna borginni.

Enn annað dæmi um þetta virðingarleysi er að fjöldi borgarfulltrúa hefur staðið í stað í yfir hálfa öld þrátt fyrir að tilfærslur verkefna til sveitastjórna og fjölgun íbúa hafi í för með sér margföldun verkefna.

Borgarmálin í Reykjavík smámál?
Svo láta menn eins og það sé smámál að Reykjavík sé í algjörri stöðnun og fljóti um stjórnlaus svo mánuðum skiptir og enginn vinnufriður ríki á einum stærsta vinnustað
landsins. Það vill svo til að Reykjavík er ekkert venjuleg borg, það vill svo til að í henni búa 1/3 hluti þjóðarinnar svo stjórnleysi í borginni þýðir ekkert annað en stjórnleysi á Íslandi. Ef nú er ekki tilefni til að bregðast við í flýti með setningu bráðabirgðalaga þá veit ég ekki hvenær tilefni ætti að vera til þess.
Það liggur á að koma lýðræðinu og íbúum þessa lands til varnar!

Sýnum lýðræðinu virðingu, björgum réttarörygginu og kjósum á ný í
Reykjavík!!

Engin ummæli: